Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti í dag úthlutun á lóð við Suðurlandsbraut til Félags múslima á Íslandi. Fulltrúar Besta flokksins, Samfylkingar og Vinstri grænna greiddu allir atkvæði með tillögunni, en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu allir hjá við atkvæðagreiðsluna og létu fylgja bókun.
Þeir fulltrúar sem samþykktu tillöguna óska í bókun sinni Félagi múslima á Íslandi til hamingju með lóðina. Í bókun meirihlutans segir einnig: „Borgarráð vill af þessu tilefni óska eftir því að Alþingi hefji endurskoðun á þeim ákvæðum í lögum um Kristnisjóð o.fl. nr. 35/1970 sem kveða á um að sveitarfélögum sé skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi. Lögin voru sett á tíma þegar trúarlíf þjóðarinnar var almennara og einsleitara og meiri sátt ríkti um þátttöku opinberra aðila í rekstri trúfélaga. Á þeim tíma mátti færa fyrir því rök að eðlilegt væri að Reykjavíkurborg léti frá sér án endurgjalds lóðir undir kirkjur.“
Í bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins segir að ítrekað hafi verið bent á það að breytingar á aðalskipulagi Sogamýrar hefði átt að fella inn í vinnu að nýju aðalskipulagi Reykjavíkur sem nær til ársins 2030 enda er á skjön við vinnubrögð umhverfis- og skipulagsráðs að taka einstakar lóðir út fyrir sviga og láta mikilvæga heildarhugsun í aðalskipulagi víkja.
Borgarráð fagnar því að geta loks samþykkt umsókn Félags múslima á Íslandi um lóð undir mosku og óskar múslimum á Íslandi til hamingju með lóðina og væntanlega uppbyggingu. Úthlutun lóðarinnar í Sogamýri er jafnframt síðasti áfangi Reykjavíkurborgar í að útvega fjórum trúfélögum lóðir undir tilbeiðsluhús sín en nú þegar hafa farið fram lóðaúthlutanir til Ásatrúarfélagsins, Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og Búddista. Í fjölmenningarsamfélagi nútímans má búast við fjölgun trúfélaga jafnhliða fjölgun þeirra sem enga trú iðka. Því telur borgarráð það affarasælast í framtíðinni að trúfélög sæki um og greiði fyrir lóðir í landi borgarinnar líkt og er um aðra mikilvæga starfsemi. Borgarráð vill af þessu tilefni óska eftir því að Alþingi hefji endurskoðun á þeim ákvæðum í lögum um Kristnisjóð o.fl. nr. 35/1970 sem kveða á um að sveitarfélögum sé skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og undanskilja þær gatnagerðargjaldi. Lögin voru sett á tíma þegar trúarlíf þjóðarinnar var almennara og einsleitara og meiri sátt ríkti um þátttöku opinberra aðila í rekstri trúfélaga. Á þeim tíma mátti færa fyrir því rök að eðlilegt væri að Reykjavíkurborg léti frá sér án endurgjalds lóðir undir kirkjur. Það er tímaskekkja að skylda sveitarfélög einhliða til að ráðstafa dýrmætu borgarlandi án endurgjalds til þeirra trúfélaga sem sækjast eftir því. Reykjavíkurborg styður eftir sem áður fjölbreytt trúarlíf í borginni.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa ítrekað bent á að breytingar á aðalskipulagi Sogamýrar hefði átt að fella inn í vinnu að nýju aðalskipulagi Reykjavíkur sem nær til ársins 2030 enda er á skjön við vinnubrögð umhverfis- og skipulagsráðs að taka einstakar lóðir út fyrir sviga og láta mikilvæga heildarhugsun í aðalskipulagi víkja. Þau sjálfsögðu vinnubrögð að vinna framtíðarskipulag borgarinnar á einum stað hefðu tryggt betra samráð við borgarbúa. Það hefði verið æskilegt enda verið að breyta grænu svæði í byggingarland. Í aprílmánuði 2011 var samþykkt einróma í skipulagsráði að setja tímamörk í lóðaúthlutanir til trúfélaga þannig að lóðum yrði skilað aftur til borgarinnar eftir tvö ár ef framkvæmdir hefðu ekki hafist. Þá var einnig samþykkt að trúfélag skuli við úthlutun lóðar upplýsa um fjármögnun framkvæmda. Trúfélög greiða engin gatnagerðargjöld og þess vegna ekki óeðlilegt að sett séu hófleg skilyrði fyrir úthlutuninni. Tillagan var samþykkt einróma í borgarráði mánuði síðar. Þrátt fyrir að borgarráð hafi samþykkt sérstaka skilmála sem gilda eiga fyrir öll trúfélög eru þeir ekki hluti af úthlutunarskilmálum lóðar við Suðurlandsbraut. Slík stjórnsýsla er óskiljanleg. Fordæmalaust er að borgarráð kannist ekki við eigin ákvarðanir. Lágmarkskrafa hefði verið, ef fulltrúar meirihlutaflokkanna í borgarstjórn vildu breyta fyrri samþykktum, að taka málið upp að nýju og gera breytingar með formlegum hætti. Útilokað er að standa að ákvörðun sem stjórnsýslulega er vægast sagt vafasöm. Tekið er undir að endurskoða þarf ákvæði laga um Kristnisjóð sem gera sveitarfélögum skylt að leggja til ókeypis lóðir undir kirkjur og tilbeiðsluhús án endurgjalds. Þau ákvæði eiga ekki við í dag enda má búast við því í fjölmenningarsamfélagi nútímans að trúfélögum fjölgi jafnhliða fjölgun þeirra sem enga trú iðka. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks styðja fjölmenningu, fjölbreytt trúarlíf og jafnræði borgarbúa. Endurskoðun fyrrgreindra laga að þessu leyti mun styðja það.