„Við stefnum að því að geta tekið fyrstu skóflustunguna í vor, en fyrst höfðum við hugsað okkur að hafa góða samkeppni um útlitið á moskunni í samvinnu við Arkitektafélagið,“ segir Sverrir Agnarsson, formaður Félags múslima á Íslandi í kjölfar ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkurborgar í dag um að veita félaginu lóð undir mosku.
Sverrir áætlar að byggingin geti tekið um 2-3 ár og kostnaðurinn við bygginguna sé mjög gróflega áætlaður um 300 til 400 milljónir króna. Hvað varðar fjármögnun segir Sverrir félagið leita út fyrir landssteinanna. „Við ætlum að leita til múslima víða um heim, og þá helst einstaklinga. Fjármögnunin er ekki beinlínis hafin, en við eigum inni töluvert af loforðum og við verðum bara að fá þau efnt. Við eigum rétt á að ganga í einhverja sjóði,“ segir Sverrir.
Hann segir mikla ánægju ríkja meðal félagsmanna vegna ákvörðunar borgarráðs. „Þetta hefur samt legið fyrir nokkuð lengi. Andstaðan við moskuna hefur ekki verið neitt sérstök, það hefur alla veganna ekki verið neinn klassi yfir henni.“