Verð á kaffi í íslenskum verslunum hækkaði að meðaltali um 14,5% frá ágúst 2011 til ágúst 2013. Á sama tímabili lækkaði heimsmarkaðsverð á Robusta kaffibaunum um 15,1%, en um 40% af öllu kaffi í heiminum er framleitt úr slíkum baunum. „Hvað er þetta með kaffiverðið hér?“ spyrja Neytendasamtökin.
Á vefsvæði Neytendasamtakanna segir að neytandi hafi haft samband of fullyrt að heimsmarkaðsverð á kaffi hafi farið lækkandi án þess að sú verðlækkun hefði skilað sér í verslunum hér. Neytendasamtökin skoðuðu því málið.
„Sölugengi evrunnar fór úr 165,21 kr. í 158,14 kr. á tímabilinu 2. ágúst 2011 til 1. ágúst 2013 (skv. gengisskráningu Seðlabankans). Dollarinn fór á sama tímabili úr 116,36 kr. í 119,38 kr. Þannig hafði krónan styrkst gagnvart evru en gefið eftir gagnvart dollarnum á þessu tímabili.
Því spyrja Neytendasamtökin, hvað er þetta með kaffiverðið hér? Af hverju þróast kaffiverðið hér ekki í samræmi við heimsmarkaðsverð og þróun gengis?“