Stefndi lífi fólks í hættu

Lögreglan sést hér stöðva för ökuníðings en ekki er um …
Lögreglan sést hér stöðva för ökuníðings en ekki er um sama ökuníðing að ræða og er nú ákærður. mbl.is/Július

Ríkissaksóknari hefur ákært pilt, sem var sextán ára á þeim tíma, fyrir fjölmörg umferðarlagabrot sem og hegningar- og lögreglubrot fyrir tæpum tveimur árum. Pilturinn er nú nítján ára gamall.

Pilturinn ók bifreiðinni í heimildarleysi, án þess að hafa öðlast ökuréttindi, óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (tetrahýdrókannabínól í þvagi), án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu og við eftirför lögreglu ekið um götur Reykjavíkur yfir leyfilegum hámarkshraða með allt að 117 km hraða á klst. 

Ók hann tvívegis yfir gatnamót án þess að virða biðskyldu og einu sinni gegn rauðu ljósi, uns hann stöðvaði aksturinn á Víkurvegi eftir að hafa misst stjórn á bifreiðinni þannig að hún fór yfir á rangan vegarhelming en stöðvaðist utan vegar við akrein þá sem hann hafði ekið eftir. 

Segir í ákæru að hann hafi bæði raskað umferðaröryggi á alfaraleið auk þess sem hann stefndi lífi og heilsu farþega í bifreiðinni, svo og annarra vegfarenda í augljósan háska á ófyrirleitinn hátt.

Á leið vestur Gagnveg þar sem hámarkshraði er 50 km/klst, mældist hraði bifreiðarinnar sem ákærði ók allt að 115 km/klst, en við gatnamót Gagnvegar og Fjallkonuvegar beygði hann Fjallkonuveg til norðurs án þess að virða biðskyldu, ók síðan um hringtorg þar sem hann ók upp á umferðareyju og beygði Hallsveg til austurs

Á leið austur Hallsveg þar sem hámarkshraði er 50 km/klst, mældist hraði bifreiðarinnar allt að 121 km/klst, en við gatnamót Hallsvegar og Víkurvegar beygði ákærði norður Víkurveg án þess að virða biðskyldu og missti þar stjórn á bifreiðinni þannig að hann ók nokkurn spöl utan vegar en komst inn á Víkurveg, sem hann ók til norðurs og gegn rauðu ljósi á gatnamótum Víkurvegar, Borgavegar og Fossaleynis og áfram til norðurs þar til hann kom að hringtorgi við bifreiðastæði við Egilshöll. Þar missti ákærði á ný stjórn á bifreiðinni og ók á kantstein en við það snérist bifreiðin 180°, kastaðist yfir á rangan vegar helming en staðnæmdist utan vegar við akrein þá sem henni hafði verið ekið eftir.

Fyrirtaka var í málinu í vikunni í Héraðsdómi Reykjavíkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert