Þjófarnir lyktuðu af hráolíu

Á flóttanum hentu þjófarnir út úr bílunum mörgum tómum og …
Á flóttanum hentu þjófarnir út úr bílunum mörgum tómum og hálftómum olíubrúsum sem og slöngum og öðrum tilheyrandi búnaði. AFP

Árvökull bóndi í Svínadal varð til þess að þjófar sem stolið höfðu olíu af vinnuvélum voru handteknir. Er lögreglan hafði hendur í hári þeirra lagði megna hráolíulykt af þeim, segir í frétt frá lögreglunni í Borgarfirði og Dölum.

Bóndi í Svínadal sunnan Skarðsheiðar í Hvalfjarðarsveit sá til grunsamlegra mannferða seint í gærkvöldi í malargryfju í námunda við bæjarhúsin hjá sér. Hann snaraði sér á staðinn og hitti þá fyrir fjóra erlenda menn á tveimur bílum. Voru þeir búnir að skrúfa lokið af olíutanki vinnuvélar í hans eigu og voru að fara að stela af henni olíunni. Brá mönnunum heldur í brún þegar bóndinn kom að þeim askvaðandi og keyrðu þeir með miklum látum í burtu. 

Bóndinn hringdi til lögreglunnar í Borgarfirði og Dölum sem kom á staðinn og hafði samband við lögregluna í Reykjavík. Lögreglan náði síðan að stöðva för þessara bíla á Kjalarnesinu.  Voru mennirnir handteknir og færðir í fangageymslu í Reykjavík.

Á flóttanum hentu þjófarnir út úr bílunum mörgum tómum og hálftómum olíubrúsum sem og slöngum og öðrum tilheyrandi búnaði. Megna hráolíulykt lagði af mannskapnum og ökutækjunum þegar mennirnir voru handteknir á Kjalarnesinu.

Verða þeir yfirheyrðir af lögregunni á höfuðborgarsvæðinu og lögreglunni í Borgarfirði og Dölum í dag vegna þessa máls og annarra sem þeir eru grunaðir um að hafa staðið að á undanförnum mánuðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert