„Það var aldrei góðæri á Landspítala og undanfarin ár hefur stöðugt verið skorið niður og stöðugildum fækkað. Það er því full ástæða til að hafa áhyggjur af því hvað framtíðin ber í skauti sér,“ segir í ályktun frá starfsmannafélagi Landspítalans.
Í ályktuninni ítrekar starfsmannafélaigð áhyggjur sínar af líðan starfsmanna og bendir á þá miklu erfiðleika sem steðja að á lyflækningasviði.
Fram kemur, að atgervisflótti starfsmanna hafi haldið áfram og líðan þeirra sem séu í starfi sé ekki góð.
„Mikið álag er á starfsfólki og stöðug krafa um að taka að sér fleiri verk. Heilbrigðisstarfsfólk fer erlendis á „vertíð“ til að hækka launin en einnig til langdvalar.
Samkvæmt starfsumhverfiskönnun er streita mikil hjá starfsfólki og veikindi eru meiri 2013 en fyrri ár. Læknar vilja ekki ráða sig við Landspítalann og við því á að bregðast með því að aðrar stéttir taki að sér hluta af störfum þeirra, án þess að það sé skilgreint nánar.
Það var aldrei góðæri á Landspítala og undanfarin ár hefur stöðugt verið skorið niður og stöðugildum fækkað. Það er því full ástæða til að hafa áhyggjur af því hvað framtíðin ber í skauti sér.
Starfsmannafélagið hvetur stjórnendur og yfirvöld að hlúa að mannauði spítalans til að tryggja öryggi sjúklinga,“ segir í ályktuninni.