Hafa áhyggjur af ungu fólki með krabbamein

mbl.is/Lára Halla

Stjórn Krafts, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er yfir áhyggjum af fjárhagslegum byrðum ungs fólks sem greinist með krabbamein. 

Í yfirlýsingunni segir að á síðastliðnum 30 árum hafi greiðsluþátttaka krabbameinssjúklinga tvöfaldast. Krabbamein hefur mjög íþyngjandi áhrif á alla fjölskylduna auk þess sem ungt fólk sé oft þegar með fjárhagslegar skuldbindingar á bakinu vegna húsnæðiskaupa, námslána og því komi það sér mjög illa fyri fjárhag fjölskyldunnar þegar annar aðilinn veikist skyndilega, auk því andlega áfalls sem oft er fylgifiskur þess. 

Kostnaður við krabbameinsmeðferð og nauðsynleg lyf gegn sjúkdómnum skiptir oft hundruðum þúsunda fyrir utan allan afleiddan kostnað. Segir í yfirlýsingu stjórnar Krafts að dæmi séu um að fjölskylda hafi þurft að greiða allt að tveimur milljónum á ári í beinan og óbeinan kostnað vegna veikinda fjölskylduföðurs. Hvetur stjórn félagsins því stjórnvöld til þess að endurskoða kostnaðarþátttöku vegna krabbameinsmeðferðar, þannig að Íslendingar standi jafnfætis nágrannalöndum sínum í þessum efnum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert