Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra kynti á fundi Hafnasambands Íslands í morgun að hún ætlaði að leggja fram lagafrumvarp um breytingar á hafnalögum sem miði að því að bregðast við fjárhagsvanda hafna og styðja betur endurnýjun hafnamannvirkja. Hún sagðist jafnframt vera opin fyrir þeirri hugmyndir að heimila aðkomu annarra en ríkissjóðs að uppbyggingu innviða í landinu, til dæmis vega, flugsamgangna eða hafnarmannvirkja.
Þetta kemur fram í frétt frá innanríkisráðuneytinu.
Um væntanlegar breytingar á hafnalögum sagði ráðherra markmið frumvarpsins fyrst og fremst að bregðast við þeim fjárhagsvanda sem snúi að höfnum landsins auk annarra breytinga, svo sem á ákvæðum um neyðarhafnir. Mikilvægt væri að eigendur hafna geti gert með sér samning um samrekstur einstakra þátta er varði rekstur hafna og hún sagði einnig standa til að breyta ákvæðum um ríkisstyrki, m.a. er varðar endurbyggingar og endurbætur á skjólgörðum, bryggjum, nýframkvæmdum, rekstri hafnsögubáta, innsiglingarmerki, löndunarkrana og hafnarvogir.
Um frekari aðkomu einkaaðila við uppbyggingu í hagkerfinu minnti ráðherra á stöðu ríkissjóðs, tími hagræðingar væri ekki liðinn og forgangsverkefni væri að rétta af rekstur ríkisins. „En burtséð frá stöðu ríkissjóðs þá eigum við að vera opin fyrir aðkomu annarra en ríkisins að uppbyggingu innviða í landinu, hvort sem það er við uppbyggingu vega, flugsamgangna eða hafnarmannvirkja. Hér á landi er mikil þörf fyrir fjárfestingu en það sem skiptir meira máli er að út um allt land leynast mikil fjárfestingartækifæri,“ sagði ráðherra og nefndi sem dæmi fyrirhugaðar rannsóknir í samstarfi við einkaaðila á mögulegri stórskipahöfn í Finnafirði. Þar væri ekki gert ráð fyrir fjárhagslegum stuðningi ríkisins og megintilgangur hafnar í Finnafirði yrði að þjóna norðurskautssiglingaleiðinni á móti umskipunarhöfn í Alaska.