Ríkisstarfsmönnum hefur fjölgað eftir hrunið. Alls fjölgaði ársverkum hjá ríkinu um 198 frá 2007 til 2011 en á sama tíma átti sér stað um 27 milljarða kr. niðurskurður ríkisútgjalda.
Þetta kemur fram í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um breytingar á fjölda ríkisstarfsmanna í kjölfar efnahagshrunsins. Ríkisstarfsmönnum hefur þó fækkað mikið í sumum stofnunum en fjölgað í öðrum. Mestur er niðurskurður ársverka hjá stofnunum á vegum velferðarráðuneytis og iðnaðarráðuneytis.
Á sama tíma fjölgaði hins vegar starfsmönnum mest í stofnunum á vegum menntamálaráðuneytis og umhverfisráðuneytis, að því er fram kemur í fréttaskýringu um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.