Karlmaður sem ákærður er fyrir umboðssvik í tengslum við notkun á greiðslukorti Sjálfstæðisflokksins sagði við aðalmeðferð málsins í dag að hann hefði haft fulla heimild til kortanotkunarinnar. Hann sagðist hafa verið starfsmaður Sjálfstæðisflokksins en við það er ekki kannast innan flokksins.
Páll Heimisson er 31 árs og starfaði sem ritari íhaldshóps Norðurlandaráðs frá árinu 2008 og til vormánaða 2011 þegar honum var sagt upp störfum þegar grunur vaknaði um misferli. Páll var með aðstöðu í Valhöll og tvö kreditkort skráð á Sjálfstæðisflokkinn. Með öðru þeirra var honum ætlað að greiða útgjöld tengd störfum íhaldshópsins.
Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, rakti fyrir dómi í dag hvernig málið komst upp. Hann sagði Sjálfstæðisflokkinn eiga aðild að íhaldshópi Norðurlandaráðs og hafa tekið við formennsku árið 2008. Sökum þess hafi flokkurinn átt að tilefna mann í starf ritara og var honum svo veitt aðstaða í Valhöll.
Hann sagði að Páll hefði verið að skila af sér sínum verkefnum í árslok 2011. Meðal þess sem Páll átti að gera var að senda gögn til Finnlands en Finnar voru að taka við formennsku. Jónmundur segir ritara íhaldshópsins í Finnlandi hafa hringt til sín en þau hefðu áður verið í samskiptum við Pál vegna þess að færa þurfti fjármuni milli landanna. Páll hefði hins vegar sagt að það væri ekki hægt að færa meira en 400 þúsund sænskar krónur á milli landa vegna gjaldeyrishafta. Bað nýi ritarinn Jónmund um að athuga hvað væri til í þessu.
Jónmundur óskaði í kjölfarið eftir bankayfirliti og kom þá í ljós að mun minna fé var inni á reikningi íhaldshópsins en komið hafði fram í uppgjöri Páls. Þegar Jónmundur fór svo yfir kortanotkun Páls sá hann strax að eitthvað skrítið var í gangi og margar háar úttektir úr hraðbönkum.
Þá hafði Jónmundur samband við Pál sem staddur var í New York. Raunar gekk erfiðlega að ná í Pál en hann svaraði loks og sendi síðar tölvupóst til Jónmundar. Við skýrslutöku í dag sagði Jónmundur að ekki væri annað hægt að lesa úr tölvubréfinu en viðurkenningu á að misbrestir hefðu orðið á rekstri íhaldshópsins auk þess sem Páll hefði viðurkennt að hafa gerst sekur um lögbrot.
Jónmundur gaf þá Páli fjóra daga til að gera hreint fyrir sínum dyrum en þegar ekkert svar barst fór hann til lögreglu og gaf út tilkynningu um málið.
Páll er ákærður fyrir að misnota aðstöðu sína og skuldbinda Sjálfstæðisflokkinn þegar hann í 321 skipti notaði kreditkort flokksins til úttekta á reiðufé, kaupa á vörum og þjónustu fyrir 19,4 milljónir króna. Úttektirnar voru á árunum 2009-2011. Til dæmis tók Páll út 100 þúsund krónur úr íslenskum hraðbönkum í 82 skipti, þar á meðal 14 sinnum frá 4. maí til 28. júní 2010.
Þrátt fyrir að kortið hafi verið skráð á Sjálfstæðisflokkinn var það fé íhaldshópsins sem notað var til að greiða greiðslukortareikningana. Það er því íhaldshópurinn sem tapaði fé en ekki Sjálfstæðisflokkurinn.
Við þingfestingu málsins neitaði Páll sök. Aðalmeðferðin hófst svo í morgun og lauk síðdegis. Páll sagðist hafa fengið VISA-greiðslukort snemma á árinu 2008 en það hefði verið skráð á Sjálfstæðisflokkinn. Með því hefði hann átt að greiða útlagðan kostnað íhaldshópsins. Í lok árs 2008 eða byrjun árs 2009 hefði Páll svo óskað eftir því að fá American Express-kort. Orðið hefði verið við því og það fyrirkomulag sett upp að hann ætti að greiða kostnað íhaldshópsins með American Express-kortinu en kostnað Sjálfstæðisflokksins með VISA-kortinu, og eins íhaldshópsins ef ekki væri tekið við American Express.
Páll sagði að annars hefði ekkert verið rætt um notkun kortanna og að hann hefði haft fulla heimild til að nota þau að vild. Þess ber að geta að aðeins er ákært fyrir notkun á American Express-kortinu. „Ég sá ekki að það væri öðruvísi að nota VISA-kortið en American Express-kortið,“ sagði Páll og einnig að hann hefði rætt við fjármálastjóra Sjálfstæðisflokkinn um reikninga kortanna. Úttektir hans hefðu því verið með fullri vitund fjármálastjórans. Þá hefði hann notað kortin samhliða og það hefði ekki getað farið fram hjá fjármálastjóranum hvernig kortanotkuninni var háttað. Einnig hefði fjármálastjórinn fengið alla flugmiða senda.
Þegar hann var spurður að því hvort hann hefði haft yfirsýn yfir útgjöld sín sagði Páll svo ekki hafa verið. Hann hefði þó fært inn kostnað vegna íhaldshópsins í Excel-skjal eftir fremsta megni. Það hefði þó ekki alltaf gengið eftir.
Þá rifjaði hann upp þegar hann átti að skila af sér verkefnum sínum til Finna. „Þarna þyrmdi yfir mig og ég gerði mér grein fyrir vandanum,“ sagði Páll. Hann sagðist hafa farið til New York í fjáröflunarferð. Hann hefði ætlað að gera lokatilraun til að greiða féð til baka. „Þetta lá afskaplega þungt á mér eftir að ég sá umfangið.“ Hann sagðist hafa verið í losti þegar hann skrifaði Jónmundi og viðurkennt verknaðinn.
Ennfremur var Páll spurður að því hvers vegna hann hefði ekki leitað til Sjálfstæðisflokksins úr því kortanotkunin var með samþykki hans. „Mér fannst að þetta ætti að liggja á mínum herðum, þó að þetta hefði verið með þeirra samþykki.“
Andri Óttarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins frá 2008 til 2009, kom einnig fyrir dóminn. Hann sagðist ekki hafa haft boðvald yfir Páli. Hann hefði haft aðstöðu í Valhöll en starfað fyrir íhaldshópinn. Hann hefði því ekki borið undir sig fjárútlát eða hvenær hann mætti yfirleitt í vinnuna. Andri þvertók fyrir það að hafa veitt Páli heimild til að nota greiðslukort til annars en að greiða kostnað vegna íhaldshópsins.
Það sama gerði Jónmundur og báðir neituðu því að þeir hefðu verið yfirmenn Páls. Hann hefði haft skyldum að gegna gagnvart íhaldshópnum og skipulagt sín störf sjálfur. Hann hefði komið og farið að vild.
Þá sögðu þeir að Páll hefði sjálfur átt að halda utan um bókhald íhaldshópsins og þær heimildir sem hann hefði haft til ráðstöfunar fjár hefði mátt finna í ítarlegri fjárhagsáætlun sem gerð var fyrir hvert ár.
Ennfremur sagði Jónmundur að féð hefði ekki verið endurgreitt íhaldshópnum. Líklega mundi umræða um endurgreiðslu hins vegar verða þegar niðurstaða væri komin í þetta mál. Bótakrafan í málinu væri fyrir hönd íhaldshópsins.
Fjármálastjórinn sem Páll sagði svo vera kom einnig fyrir dóminn. Petrea Ingibjörg Jónsdóttir hafnaði því hins vegar að hún hefði verið fjármálastjóri, á þessum tíma hefði hún verið ritari en væri í dag skrifstofustjóri. Hún hefði þó séð um að greiða reikninga.
Hún sagðist hafa verið beðin um að greiða reikninga íhaldshópsins. Hún hefði tekið við fyrirmælum frá Páli um hvaða reikninga bæri að greiða. Hún sagði það ekki hafa verið sitt hlutverk að fara yfir reikningana eða kortayfirlit.
Þá sagðist Petrea hvorki hafa haft heimild né valdsvið til að heimila Páli að nota kortið með þeim hætti sem hann gerði. Þetta hefði verið alfarið á hans könnu.
Laun Páls voru greidd af Sjálfstæðisflokknum en upphæðin svo fengin greidd til baka af íhaldshópnum. Sjálfur segist Páll hafa litið á sig sem starfsmann Sjálfstæðisflokksins og aldrei kynnt sig öðruvísi en alþjóðafulltrúa flokksins. „Stærsti hluti starfa minn fór fram fyrir hönd flokksins. Þegar efnahagshrunið dundi yfir var ég skipaður í viðbragðshóp sem fundaði hvern einasta morgun kl. 7.30 og aftur klukkan 23.30,“ sagði Páll og tók fram að þetta hefði verið tveggja mánaða tímabil og að hann hefði haft skrifstofu í menntamálaráðuneytinu á þessum tíma.
Þá sagðist hann hafa séð um utankjörfundaskrifstofu flokksins og um erlenda gesti á landsfundi. „Það sem var svo einnig á minni könnu var að svara erlendum fréttamönnum og fyrirspurnum erlendis frá um ástandið á Íslandi.“ Hann sagðist einnig hafa séð um bréfaskriftir til útlanda fyrir Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra og formann flokksins. „Öll erlend samskipti voru á minni könnu.“
Þá benti Páll á að hann hefði fengið nafnspjald frá flokknum með titli sínum, þ.e. alþjóðafulltrúi, auk þess sem hann var á starfsmannalista á vefsvæði flokksins og í viðburðanefnd skrifstofunnar í Valhöll.
Enginn annar kannaðist hins vegar við að Páll hefði verið starfsmaður Sjálfstæðisflokksins. „Hans aðalskyldur voru gagnvart íhaldsgrúppunni. Það var algjörlega á hreinu,“ sagði Andri Óttarsson en bætti við að gegn því að fá aðstöðu í Valhöll hefði mátt biðja Pál um smávægileg viðvik. „En ef maður ber saman samband og samskipti við aðra einstaklinga innan Valhallar þá voru þau mjög frábrugðin. Ég hafði ekki boðvald yfir honum. Aðrir þurftu að bera nánast öll fjárútlát undir mig, því var ekki að skipta með Pál. Ég hafði ekkert að segja með verklag eða vinnutíma. Hann þurfti ekki að biðja mig leyfi þegar hann fór til útlanda. Ég hafði ekki húsbóndavald, það lá hjá íhaldshópnum.“
Spurður út í viðbragðshópinn og skrifstofuna í menntamálaráðuneytinu þá brást minni Andra. „Ég var í þessum hóp og þó að ég ætli ekki að útiloka að hann hafi komið á einhverja fundi þá minnist ég þess ekki.“ Sama sagði hann um skrifstofuna, þ.e. að hann ætlaði ekki að útiloka að Páll hefði haft aðstöðu í ráðuneytinu en hann minntist þess ekki.
Andri minntist þess ekki heldur að Páll hefði haldið utan um utankjörfundaskrifstofu flokksins.
Skýrsla Jónmundar Guðmarssonar var sambærileg. „Hann átti sjálfur frumkvæði að því að hann gæti verið mér innan handar vegna verkefna flokksins. Stundum hafði hann tíma til þess að sinna smávægilegum viðvikum en ekki alltaf.“
Jónmundur viðurkenndi þó að Páll hefði oftlega setið starfsmannafundi og að hann hefði fengið jólabónus eins og starfsfólk Sjálfstæðisflokksins.
Fleira kom fram hjá Páli sem Andri kannaðist ekki við. Þannig sagðist Páll hafa gengið á fund Andra snemma árs 2009 og óskað eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn keypti tölvu til að nota í vinnunni. „Hann sagði að ég yrði að nota American Express-kortið því það væri ekki til peningur,“ sagði Páll og bætti síðar við að fjármunir frá íhaldshópnum hefðu verið notaðir til að greiða laun starfsmanna Sjálfstæðisflokksins vegna þess að flokkurinn hefði verið mjög fjárvana.
Hvorki Andri né Jónmundur könnuðust við þessar staðhæfingar Páls. „Þetta kom til tals hjá lögreglunni. Ég kannaðist ekki við það þá en leitaði eftir svörum. Það var einu sinni greiddur símareikningur fyrir mistök af þessum reikningi en þegar það uppgötvaðist var það fært til betri vegar.“
Eftir málflutningsræður var málið dómtekið síðdegis og ætti dómur að liggja fyrir á næstu fjórum vikum.