„Það var vitað að það yrði óvissa með árið 2014 og við höfum reynt að halda fólki upplýstu um framvinduna,“ segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sem fer nú yfir rekstrargrundvöll næsta árs. Hann segir í samtali við mbl.is. að embættið sé þegar byrjað að draga saman seglin.
Ráðningarstopp var sett á sl. haust og síðan þá hefur starfsmönnum fækkað um 10%.
Embættið hefur fundað með innanríkisráðherra þar sem farið hefur verið yfir starfsemina, fjármálin og verkefnastöðuna. Ákveðnar sviðsmyndir hafa verið skoðaðar, m.a. hvað það þýðir fyrir embættið verði útgjöldin skorin niður, annað árið í röð.
„Menn þurfa að skoða vel hvað verður árið 2014 og undirbúa það sem koma skal í þeim efnum; við vitum ekki hvað það nákvæmlega er,“ segir Ólafur, en embættið verði að starfa innan þess ramma sem Alþingi ákveður.
„Það styttist í fjárlagafrumvarpið,“ bætir Ólafur við.
Þegar mest lét störfuðu 109 hjá embættinu en starfsmennirnir eru nú um 100 talsins. Ólafur segir að erlendum og innlendum sérfræðingum, sem hafa starfað fyrir embættið, hafi sömuleiðis verið fækkað.
„Við höfum fækkað sérfræðingum og síðan ekki ráðið í þær lausu stöður sem hafa verið að losna hjá okkur. Við höfum sjálf gert tillögur um að embættið fari niður um 12%, þ.e.a.s. frá rekstrargrunni ársins í ár [sem nemur 1.336 milljónum kr.].“
„Við höfum sjálf verið að tóna niður það sem af er og við erum innan fjárheimilda á þessu ári,“ segir Ólafur ennfremur.
Þá bendir hann á, að samkvæmt minnisblaði, sem sérstakur saksóknari sendi stjórnvöldum árið 2010, hafi 600 milljónir ekki skilað sér til embættisins. Í minnisblaðinu er að finna drög að rekstraráætlun embættis sérstaks saksóknara frá árinu 2009 til ársloka 2014
Ólafur segir að embættið hafi ekki fengið allar þær fjárveitingar sem minnisblaðið gerði ráð fyrir þar sem það náði ekki að stækka eins hratt eins og að var stefnt.
„Þess vegna vorum við að setja saman þessar tvær tölur, sumsé framlagið eins og það var hugsað samkvæmt minnisblaðinu á næsta ári plús það sem upp á vantaði. Sú tala, samanborið við rekstrargrunn ársins í ár, gerir það að verkum að það munar um það bil 12% þarna á milli.“
Aðspurður segist hann ekki geta tjáð sig um hvort uppsagnir séu í vændum. „Þetta er ekki afráðið fyrr en fjárlögin koma fram.“
Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2013 skar fjárveitingarvaldið niður framlög til embættisins, en niðurskurðurinn hljóðaði upp á 476 milljónir milli ára. Embættið fékk því samtals 849 milljónir greiddar úr ríkissjóði skv. síðustu fjárlögum, en Ólafur bendir hins vegar á að embættið hafi átt 487 milljóna kr. afgang frá fyrra rekstrarári sem hægt var að nota til að brúa bilið.
Á fjárlögum ársins 2012 nam fjárveitingin 1.325,4 milljónum kr., árið 2011 var hún 1.172,2 milljónir, 317,8 milljónir árið 2010 og 50 milljónir árið 2009.
„Við erum með fjárveitingu upp á 849 milljónir á þessu ári og svo erum við með afgang sem við erum að klára. Þegar hann er búinn í lok þessa árs þá er nú svolítið gat á milli þess sem embættið kostaði á þessu ári og þess sem við mögulega fáum - ef fjárveitingin heldur sér. Þetta blasir alveg við,“ segir Ólafur.
Ólafur segir að markmiðið sé að ljúka rannsókn á flestum málum sem tengjast efnahagshruninu á næsta ári.
„Svo framarlega sem fjárveitingin dragist ekki verulega saman þá er það ennþá raunhæft.“