Nýjar göngu- og hjólabrýr yfir Elliðaárósa voru formlega teknar í notkun í morgun þegar Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs og Hreinn Haraldsson, vegamálastjori, opnuðu nýju hjóla- og gönguleiðina formlega.
Brýrnar eru öruggar með aðskilda stíga og stytta leiðina á milli Grafarvogs og miðborgar um 0,7 km. Leiðin er upplýst með lýsingu í brúarhandriðum. Stígurinn er stofnstígur og því í forgangi þegar kemur að snjóhreinsun og hálkuvörnum í vetur, segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Brýrnar byggja á vinningstillögu í samkeppni sem Reykjavíkurborg og Vegagerðin efndu til í desember 2011. Burðarvirki brúanna er 18 m hár þríhyrndur píramídi. Hönnunar- og framkvæmdarkostnaður við brýrnar var 250 milljónir króna og skiptist hann jafnt á milli Vegagerðar og Reykjavíkurborgar.
Opnun brúarinnar er einn viðburða Samgönguviku, en markmiðið með henni er að hvetja til umhugsunar um ferðavenjur og fjölga þeim sem ganga, hjóla eða nota almenningssamgöngur.