Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu fyrir svörum á fjörugum fundi í Valhöll sem Vörður-fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík stóð fyrir í morgun. Yfirskrift fundarins var Framtíðarborgin Reykjavík og gátu fundargestir þar komið athugasemdum og spurningum til kjörnu fulltrúa flokksins.
Júlíus Vífill Ingvarsson, oddviti flokksins í borgarstjórn, hóf fundinn á fleygum orðum Eggerts Stefánssonar, sem á sínum tíma bauð framamönnum í Reykjavík í spjall og kaffibolla á Hótel Borg með setningunni: „ég býð, þú borgar.“ Júlíus taldi þessi orð eiga vel við núverandi meirihluta borgarinnar og að það sjáist á lykiltölum í rekstri borgarinnar, þar sem skuldir borgarinnar aukist frá degi til dags.
Samgöngumálin voru mikið í brennidepli á fundinum. Áhyggjur voru af stöðu bifreiða í samgöngumálum og kom fram í svörum borgarfulltrúa að mikilvægt sé að bæta flæði umferðar í borginni.
Rökin fyrir því tengjast auðvitað öryggi í umferðinni, en líka umhverfissjónarmið, því langar umferðarraðir menga meira og bílstjórar eyða meiri eldsneyti því hægar sem umferðin fer. Einnig kom fram í máli Kjartans Magnússonar að leggja eigi áherslu á að fjölga mislægum gatnamótum, enda séu þau besta aðferðin til þess að fækka alvarlegum slysum í umferðinni.
Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi í Umhverfis- og skipulagsráði, vakti athygli á því að iðulega heyrist frá íbúum Reykjavíkur að minnka verði umferð í borginni. Hann benti á að flestir íbúar Reykjavíkur vilji til að mynda fá hraðahindranir í sína íbúðagötu. Einnig sé mikilvægt að bjóða upp á aðra kosti í samgöngumálum. Reynt hefur verið að bæta starfssemi Strætó bs. á undanförnum árum í kjölfar niðurskurðar á Strætó fyrir nokkrum árum, sem reyndist mjög óvinsæll.
Rætt var um styttingu grunnskólanáms sem oft hefur verði rædd. Menntamálaráðherra hefur lagt áherslu á að stúdentar útskrifist fyrr í háskóla. Meginþungi í þeirri áætlun sé að auka skilvirkni í háskólanámi, svo stúdentar klári námið sitt fyrr. Stytting grunnskólanáms sé aftar í forgangsröðuninni, en það sé vissulega stefna flokksins að stytta grunnskólanámið um eitt ár.
Þegar hafi verið ræddar tillögur í þessum efnum, til að mynda með því að bjóða upp á 5 ára bekki. Marta Guðjónsdóttir bætti svo við að meginþema Sjálfstæðisflokksins í menntamálum sé valfrelsi, og að fé frá ríki/borg skuli fylgja barni sama hvort það fari í einkarekinn eða opinberan skóla.