Íslendingar aldrei viljað í ESB

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í viðtalinu við Bloomberg-fréttaveituna í gær.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í viðtalinu við Bloomberg-fréttaveituna í gær. Skjáskot af Bloomberg.com

„Það eru enn sumir áhugasamir um að ganga í Evrópusambandið á Íslandi en almennt séð hafa Íslendingar aldrei verið mjög spenntir fyrir sambandinu eða samrunaþróuninni í Evrópu,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í viðtali við Bloomberg-fréttaveituna í gær en rætt var við hann í London.

Forsætisráðherra benti á að þegar efnahagskrísan hafi staðið sem hæst hér á landi hafi þáverandi ríkisstjórn ákveðið að sækja um inngöngu í ESB þrátt fyrir að einungis annar af ríkisstjórnarflokkunum hafi verið hlynntur því. Venjulega hafi aðeins einn stjórnmálaflokkur á Íslandi stutt inngöngu í sambandið. Almenningur hafi hins vegar ekki verið of spenntur fyrir þeirri ákvörðun.

„Síðan höfum við orðið vitni að því hvernig hlutirnir hafa þróast á evrusvæðinu þar sem atvinnuleysi hefur náð nýjum hæðum, um 12% eða eitthvað þar um bil, og enginn hagvöxtur. Á sama tíma er Ísland að ná sér aftur á strik. Atvinnuleysi komið niður í 4,5%, vaxandi hagvöxtur og ríkisfjármálin í betri málum vonandi með nýrri ríkisstjórn. Það er erfitt fyrir þá sem vilja taka upp evruna að útskýra fyrir Íslendingum hvað þeir græddu á því,“ sagði hann ennfremur.

Viðtalið við Sigmund Davið Gunnlaugsson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert