73% Reykvíkinga vilja hafa Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýri. Heildarstuðningur þjóðarinnar við flugvöllinn er 82%. Þetta kemur fram í nýrri könnun Gallup sem sagt var frá í hádegisfréttum RÚV.
Kannaður var hugur landsmanna til þess hvort Reykjavíkurflugvöllur ætti að vera áfram þar sem hann er eða fara eitthvað annað.
82% þjóðarinnar vilja að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni. Gallup kannaði þetta síðast fyrir átta árum en þá vildu 55% þjóðarinnar hafa hann áfram. Stuðningurinn við óbreytta staðsetningu hefur því aukist mikið á þessum átta árum.
73% íbúa Reykjavíkur vilja hafa hann áfram en ríflega 90% íbúa á landsbyggðinni. Konur vilja frekar hafa flugvöllinn áfram á sama stað en karlar.
90% þeirra sem eru aðeins með grunnskólapróf vilja hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýri, en 70% þeirra sem eru með háskólapróf.
Vel yfir 90% kjósenda Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í þingkosningunum vilja hafa hann áfram, á meðan aðeins um 60% kjósenda Samfylkingarinnar og Pírata eru sömu skoðunar.