300 blaðsíðum á ensku hafnað

Íslenskan er vinnumálið í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Íslenskan er vinnumálið í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Það er ekki aðeins á skiltum vegagerðarinnar sem tekist er á um hvort ásættanlegt sé að nota ensku í stað íslensku. Fyrir dómstólum er gerð krafa um að með skjölum sem lögð eru fram á erlendu máli skuli að jafnaði fylgja íslensk þýðing.

Á þetta reyndi í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, þegar Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari, hugðist leggja fram rúmlega 300 blaðsíðna skýrslu á ensku í Aurum-málinu s.k. gegn Jóni Ásgeiri Jónssyni, Lárusi Welding o.fl.

Þingmálið er íslenska

Um var að ræða áreiðanleikakönnun (e. due diligence) sem austurlenska skartgripafyrirtækið Damas fór fram á að yrði gerð vegna sölu á félaginu Aurum Holding Limited árið 2008.

Sérstakur saksóknari hafði prentað út þennan væna doðrant, ríflega 300 blaðsíður, og hugðist leggja fyrir dóminn en Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari neitaði að taka við skýrslunni þar sem hún er á ensku.

Í lögum bæði um meðferð einkamála og sakamála kemur skýrt fram að vinnumál íslenskra dómstóla, þingmálið, er íslenska. Þetta þýðir m.a. að ef skjöl á erlendu tungumáli eru lögð fram sem málsgögn, þá skal að jafnaði fylgja íslensk þýðing, nema dómari telji sér fært að þýða skjalið.

Vísað til föðurhúsanna

Ljóst var í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að dómara þótti fullmikið af hinu góða að eiga sjálfur að þýða 300 blaðsíðna skýrslu. Vísaði hann meðal annars til dóma Hæstaréttar, sem hefur gert athugasemdir í málum þar sem lagður er fram mikill fjöldi skjala á ensku án íslenskrar þýðingar. Þess eru þó fjölmörg dæmi í dómskerfinu að skjöl séu ekki þýdd yfir á íslensku.

Hugsanlega þyrmdi yfir héraðsdómarainn í ljósi þess að þau skjöl sem þegar hafa verið lögð fram vegna Aurum-málsins eru yfir 6.000 blaðsíður. Algengt er að málsgögn sem dómarar þurfa að kynna sér séu 200-400 blaðsíður en færst hefur í vöxt, einkum í efnahagsbrotum, að málsgögn hlaupi á þúsundum blaðsíðna sem útheimtir eðli málsins samkvæmt mikla vinnu af hálfu dómara, ekki síst ef skjölin eru á öðru tungumáli.

Í dag varð sérstakur saksóknari því að taka blaðsíðurnar 300 með sér heim aftur. Verði því haldið til streitu að leggja áreiðanleikakönnunina alla fyrir dóm verður það embættinu sennilega dýrt því fá þarf löggildan skjalaþýðanda til verksins og þeir rukka jafnan fyrir hvert orð úr frumtexta þegar kemur að lengri textum.

Dönskuskotnir lögmenn

Til gamans má rifja það upp að danska var þingmál Hæstaréttar á Íslandi fram til ársins 1920. Þótt gömlu lagabálkarnir Grágás og Jónsbók hafi verið ritaðir á kjarnyrtri íslensku þá var málfar íslenskra lögfræðinga mjög dönskuskotið og jafnvel alfarið á dönsku á tímabili, enda námu þeir lög við Hafnarháskóla.

Latínu- og þýskuslettur voru einnig algengar í laga- og stjórnsýslumáli á Íslandi, þar til markviss málhreinsun hófst með þjóðernisvakningu upplýsingarinnar.

Íslensk málnefnd gerði alvarlegar athugasemdir í síðustu viku við að …
Íslensk málnefnd gerði alvarlegar athugasemdir í síðustu viku við að íslensku væri skipt út fyrir ensku á upplýsinga- og viðvörunarskiltum við þjóðvegi landsins.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, í héraðsdómi.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, í héraðsdómi. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert