Handagangur hefur verið í öskjunni hjá starfsfólki Kjarnafæðis upp á síðkastið. Starfsemi þessa kunna kjötvinnslufyrirtækis hefur verið bæði á Akureyri og Svalbarðseyri en flyst nú að öllu leyti á Eyrina.
Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir, sem stofnuðu Kjarnafæði ásamt eiginkonum sínum árið 1985, eru einmitt fæddir þar og uppaldir, að því er fram kemur í umfjöllun um starfsemi Kjarnafæðis í Morgunblaðinu í dag.
Starfsemi Kjarnafæðis var í fyrstu í bílskúrnum við Reykjasíðu 5 á Akureyri, heima hjá Eiði og eiginkonu hans, Sigríði Sigtryggsdóttur. Þar framleiddu þeir bræður pitsur, löguðu salöt og sósur og síðan leiddi eitt af öðru, eins og þeir orða það.
Aldrei var sérstaklega stefnt að því að Kjarnafæði yrði öflug kjötvinnsla, heldur fyrst og fremst að fjölskyldurnar gætu séð sér farborða með rekstrinum. „Fyrirtækið þroskaðist svo smám saman út í það sem það er í dag,“ segir Gunnlaugur Eiðsson. Hann er nýtekinn við titli framkvæmdastjóra af föður sínum, sem hafði gegnt þeim starfa frá upphafi.