Fjölmenni var á fjöllum í gær þegar þar var afhjúpaður minnisvarði um Má heitinn Haraldsson bónda, oddvita og fjallkóng Gnúpverja. Hann lét mjög að sér kveða sem baráttumaður fyrir verndun Þjórsárvera, þegar uppi voru, rétt eftir aldamót, áform um gerð svonefnds Norðlingaöldulóns.
Frumkvæði Ferðafélags Íslands
Minnisvarðinn góði er á svonefndri Gljúfurleit vestan megin við Þjórsá, á afrétti Gnúpverja. Í gær voru eftirleitarmenn að koma til byggða af afréttinum með eftirlegukindur og kom minnisvarðafólkið til móts við þá. Eftir athöfnina var svo kaffiboð í ganganmannaskálanum í Gljúfurleit, þar sem kvenfélagskonur lögðu á þjóðlegar veitingar á borð m.a. kleinur og flatkökur með hangikjöti.
Það var að frumkvæði fólks sem starfar innan vébanda Ferðafélag Íslands sem minnisvarðinn var reistur. Forseti félagsins er Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, en hann lét sem alþingismaður sig Þjórsárveramál mjög varða. Áttu þeir Már margvísleg samstarf í því máli á árunum 2001 til 2003. Már var undir það síðasta orðinn sjúkur maður og lést úr krabbameini vorið 2004, fimmtugur að aldri.
Ein verðmætasta eign landsins
„Minnisvarðinn sem hér stendur er reistur til þess að halda á lofti minningu um þennan merka Íslending. Hann var fulltrúi svo margra góðra gilda sem þjóðin þarf á að halda, skynsemi, trausti og öruggri forystu í sínu héraði. Minnisvarðinn er líka reistur til að halda á lofti víðsýni og framsýni og baráttu Más Haraldssonar fyrir fegurð og náttúruverðmætum Þjórsárvera,“ sagði Ólafur Örn Haraldsson í ávarpi sínu.
Mörgum þykir að öræfakyrrð, tign og fegurð Íslands sinni dýpstu merkingu í Þjórsárverum, sagði Ólafur Örn í ávarpi sínu. „Ferðamaðurinn þarf helst að dvelja þar nokkrar daga, horfa ekki eingöngu til fjalla og jökla heldur rýna einnig í svörðinn, virða fyrir sér stör, freðmýrarústir og blómskrúð, skima niður í tjarnir fræðast um líf og landmótun. Þá verður hverjum manni ljóst að náttúrufar Þjórsárvera er ein verðmætasta eign landsins og á heimsvísu.“