Er 300 daga að afgreiða kærur

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í innanríkisráðuneytinu bíða núna rúmlega 200 kærur vegna afgreiðslu Útlendingastofnunar og það tekur ráðuneytið að meðaltali rúmlega 300 daga að afgreiða hvert mál. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segir þetta of langan tíma og það sé algert forgangsverkefni að hraða afgreiðslu mála.

Mbl.is fjallaði í síðustu viku um mál Romylyn Patty Faigane, 22 ára konu frá Filippseyjum, sem sótt hefur um dvalarleyfi hér á landi. Það tók innanríkisráðuneytið 14 mánuði að afgreiða kæru sem hún sendi vegna afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsókn hennar.

„Ég get ekki tjáð mig um einstök mál, en ég tel að þetta mál, eins og mörg önnur mál, hafi verið of lengi í afgreiðslu. Það þarf að bæta,“ segir Hanna Birna.

„Við teljum þetta algert forgangsverkefni“

Hún sagði nauðsynlegt að hraða afgreiðslu mála bæði hjá Útlendingastofnun og hjá ráðuneytinu. „Kærum vegna þessara mála hefur fjölgað mikið á síðustu misserum. Undanfarið höfum við verið í mikilli vinnu innan ráðuneytisins með það að markmiði að þessi mál gangi hraðar fyrir sig. Við teljum þetta algert forgangsverkefni. Bæði er þetta óásættanlegt gagnvart þeim sem eiga í þessum samskiptum við stjórnvöld og eins er þetta mjög kostnaðarsamt.“

Hanna Birna sagði það því miður ekki einsdæmi að það tæki ráðuneytið meira en eitt ár að afgreiða kærur vegna dvalarleyfa. „Það tekur að jafnaði rúmlega 300 daga að afgreiða mál. Málsmeðferðartími vegna hælismála og vegna dvalarleyfismála er yfirleitt rúmlega ár, sem er gríðarlega langur tími. Við höfum verið að leita í smiðju Norðmanna sem byggja á svipaðri löggjöf og við, en tryggja með ákveðnu verklagi að mál afgreiðast hraðar. Viðkomandi aðili fær þá fyrr nei eða já. Þetta hefur gengið mjög vel hjá Norðmönnum og þeim tekst að vinna málin hraðar og betur.“

Fái svar innan 48 tíma

Kærur sem innanríkisráðuneytið fær og varða umsóknir til Útlendingastofnunar eru af ýmsu tagi. Þetta eru mál sem varða hælisumsóknir, dvalarleyfi, brottvísun og vegabréfsáritun. Mál sem varða hælisumsóknir og dvalarleyfi eru erfiðustu málin og taka mestan tíma.

„Sú vinna sem er í gangi í ráðuneytinu snýr öll að þessu verklagi. Þegar viðkomandi kemur og sækir um hæli eða dvalarleyfi, þá er hægt að byggja á lista sem Noregur hefur unnið í samræmi við athugun Sameinuðu þjóðanna yfir svokölluð örugg lönd. Það þýðir að fólk fær innan 48 tíma svar um hvort viðkomandi telst uppfylla skilyrði um pólitískt hæli eða ekki. Það hraðar málsmeðferðinni mjög mikið. Viðkomandi þarf síðan ekki að vera staddur í landinu ef hann óskar eftir endurskoðun ákvörðunarinnar.“

Fólk frá ESB sækir um hæli

Hanna Birna nefndi sem dæmi að allmargar hælisumsóknir hér á landi væru frá fólki sem kæmu frá Evrópusambandslöndum. Í Noregi væru slíkar umsóknir aldrei afgreiddar sem hælisumsóknir heldur færu í annan farveg sem tæki miklu styttri tíma.

Hanna Birna sagði til skoðunar í innanríkisráðuneytinu að í stað þess að umsækjandi áfrýjaði niðurstöðu Útlendingastofnunar til ráðuneytisins sé áfrýjað til sérstakrar áfrýjunarnefndar. Hún sagði það reynslu erlendis að þetta væri fallið til að flýta afgreiðslu mála.

Hanna Birna sagði stefnt að því að nýjar verklagsreglur yrðu teknar upp hér á landi um áramót. Hún tók fram að málið hefði verið unnið í samráði við stofnanir og samtök sem koma að þessum málum. Hún sagði að eldri mál yrðu ekki afgreidd eftir þessum nýju reglum heldur einungis ný mál.

Hanna Birna sagði að til að bregðast við fjölgun umsókna hefði verið bætt við lögfræðingum bæði í ráðuneytinu og hjá Útlendingastofnun og þannig hefði tekist að hraða afgreiðslu. „Við höfum hins vegar líka velt fyrir okkur hvort verklagið við þessi mál sé á heildina litið of flókið, of umfangsmikið. Dæmin frá Noregi benda til að svo sé. Þeir voru að jafnaði 333 daga að afgreiða þessar umsóknir, en í ljós kom að unnið var í máli viðkomandi hælisleitanda eða dvalarleitanda að meðaltali í aðeins tvo og hálfan vinnudag. Það er því eitthvað við kerfið okkar sem gerir þetta óskaplega þungt í vöfum. Það er sérstakur starfshópur í ráðuneytinu að skoða skriffinnskuna í kringum þetta og ég vona að okkur takist að gera þetta betur - bæði fyrir þá sem sækja um og þá sem með sköttunum sínum greiða fyrir þessa þjónustu.“

Málið í vinnslu hjá Útlendingastofnun

Mbl.is spurði einnig Útlendingastofnun um mál Romylyn, en stofnunin hefur óskað eftir frekari gögnum um umsókn sem húnn sendi Útlendingastofnun í maí á síðasta ári. Stofnunin afgreiddi umsóknina í júní og neitaði að afgreiða umsóknin á grundvelli laga sem kveða á um að umsækjandi megi ekki vera staddur á landinu þegar umsókn er lögð fram. Romylyn kærði þá niðurstöðu til innanríkisráðuneytisins. Ráðuneytið svaraði kærunni í ágúst sl.

Ráðuneytið felldi ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og heimilaði jafnframt Romylyn að dvelja hér á landi meðan verið væri að afgreiða umsókn hennar. Útlendingastofnun telur hins vegar að vottorð sem Romylyn hefur skilað inn séu ófullnægjandi og vill að þeim verði skilað inn að nýju.

Eftir að Romylyn fékk bréfið tók hún ákvörðun um að fara úr landi vegna þess að hún taldi ljóst að afgreiðsla málsins myndi dragast í 6-8 mánuði til viðbótar og alls óvíst væri um niðurstöðuna.

„Þetta mál er í vinnslu hjá okkur, en að öðru leyti tjáum við okkur ekki um einstök mál. Þegar er verið að vinna umsóknir um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið þá fer fer fram ítarleg vinna hjá okkur,“ segir Þorsteinn Guðmundsson, sviðsstjóri hjá Útlendingastofnun.

Romylyn Patty Faigane fór af landi brott um miðjan þennan …
Romylyn Patty Faigane fór af landi brott um miðjan þennan mánuð. Hún treysti sér ekki lengur til að bíða eftir afgreiðslu á umsókn hennar um dvalarleyfi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka