Stjórn Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði ákvað á fundi sínum í dag að gera tillögu um 123 milljón lítra greiðslumark mjólkur árið 2014. Gangi tillagan eftir, þýðir hún aukningu á greiðslumarki um sjö milljónir lítra frá yfirstandandi ári, meira en dæmi eru um áður.
Tillaga um þessa miklu aukningu er til komin vegna verulegrar söluaukningar mjólkurafurða á innanlandsmarkaði undanfarin misseri, sérstaklega á fituríkari afurðum. Landssamband kúabænda segir þessa þróun á neyslu mjólkurafurða afar jákvæða fyrir íslenska kúabændur og feli í sér margvísleg tækifæri fyrir greinina.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gefur út reglugerð um greiðslumark mjólkur á næstu vikum.
Aukning greiðslumarksins hefur ekki áhrif á umfang stuðnings hins opinbera við búgreinina.