„Hafðu hemil á Vegagerðinni áður en illa fer,“ segir í niðurlagi opins bréfs sem Skúli Bjarnason hæstaréttarlögmaður sendi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra fyrir hönd Landverndar, Náttúruverndarsamtaka Íslands, Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands og Hraunavina vegna vegaframkvæmda sem standa yfir í Gálgahrauni.
Í upphafi bréfsins kemur fram að Skúla sé nauðugur sá kostur að hafa samskipti við Hönnu Birnu með þessum hætti þar sem hún hefði hafnað að veita lögmönnum ofangreindra samtaka áheyrn.
„Þess í stað vísaðir þú okkur á að ræða við vegamálastjóra, Hrein Haraldsson. Sá ágæti embættismaður hefur hins vegar ítrekað hunsað allar fundarbeiðnir af okkar hálfu og gerir enn,“ segir í bréfinu.
Þá segir að tilefni þess að samtökin óskuðu eftir neyðarfundi með innanríkisráðherra í gær hafi verið það að allt stefndi í alvarleg átök í Gálgahrauni milli umhverfis- og náttúruverndarsinna annars vegar og verktakafyrirtækisins ÍAV hins vegar.
Hópurinn segist vilja spyrja Hönnu Birnu beint um viðhorf hennar „til þeirrar staðreyndar að undirmaður hennar, vegamálastjóri, virðist láta sér fátt um finnast þó að öll helstu náttúruverndarsamtök landsins hafi snemmsumars höfðað dómsmál á hendur embættinu þar sem reynir á lögmæti fyrirhugaðra framkvæmda,“ segir í bréfinu.
Þá vill hópurinn spyrja ráðherra, hvort hún hyggist beita lögreglunni fyrir sig til að fjarlægja með valdi mótmælendur af vettvangi.
Loks vill hópurinn fá að vita hvert hennar viðhorf sé til hugsanlegra skaðabóta og annarra eftirmála ef Vegagerðinni tekst að ná fram ætlunarverki sínu í Gálgahrauni.
„Fyrsta skrefið að nýrri nálgun er auðvitað að tala saman og þá ekki síst ef aðilar eru ósammála. Við hljótum því að reikna með fundarboði af þinni hálfu eins og fljótt og við verður komið.
En umfram allt, fram að því, hafðu heimil á Vegagerðinni áður en illa fer,“ segir í bréfinu.