Átökin sem staðið hafa yfir í Sýrlandi í á þriðja ár hafa kostað hundrað þúsund manns lífið, þar af sjö þúsund börn. Ofan á þær hörmungar sem fólkið hefur þurft að líða bætist nú hungur. Ræktarlönd og akrar hafa verið eyðilagðir og stríðsátök hamla dreifingu matvæla í landinu. Nú er svo komið að fólk flýr ekki einungis landið vegna árása, heldur einnig vegna matarskorts.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu alþjóðasamtaka Barnaheilla, Save the Children, „Hungur í stríðshrjáðu landi“ eða „Hunger in a War Zone – The Growing Crisis Behind the Syria Conflict“.
Þar er að finna vitnisburð barna og foreldra sem flúið hafa yfir landamærin. Lífsnauðsynjar á borð við mat, vatn og heilbrigðisþjónustu eru af svo skornum skammti að fólk sér sig knúið til að flýja, segir í tilkynningu frá Barnaheillum.
Alls hafa um tvær milljónir Sýrlendinga flúið yfir landamærin. Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum eru auk þess fjórar milljónir Sýrlendinga innan landamæranna – þar af helmingur börn – í bráðri matarþörf.
Góðgerðarsamtök sem starfa á svæðinu áætla hins vegar að sú tala sé mun hærri og á meðan eyðileggingin heldur áfram, hækka tölurnar. Börn sem gátu treyst á þrjár góðar máltíðir á dag, sofna nú svöng, hrædd og án þess að finnast það skipta alþjóðasamfélagið máli. Sameinuðu þjóðirnar hafa þegar greint frá því að börn hafi látist af næringarskorti og vegna skorts á heilbrigðisþjónustu.
Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa hrundið af stað neyðarsöfnun til að bregðast við ástandinu og hjálpa sýrlenskum börnum og foreldrum þeirra. Alþjóðasamtökin þrýsta einnig á þjóðarleiðtoga sem sækja allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York að finna lausn á ástandinu.
„Í skýrslunni kalla sýrlensk börn og foreldrar eftir því að stríðsástandinu linni. Vitnisburður þeirra er átakanlegur. Við sem einstaklingar verðum að bregðast við. Ég hvet alla þá sem eru aflögufærir að leggja söfnuninni lið. Ég hvet líka alla til að horfa á myndbandið sem sýnir þó einungis brot af þeim hörmungum sem börnin hafa gengið í gegnum, og deila því á samfélagsmiðlum,” segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, í fréttatilkynningu.
Söfnunarsímarnir eru 904 1900 (kr. 1900) og 904 2900 (kr. 2900). Einnig er hægt að styrkja neyðaraðstoðina með frjálsum framlögum á reikning Barnaheilla - Save the Children á Íslandi 336-26-58, kt. 521089-1059.