Leita í Öskjuhlíð að dönskum ketti

Mikil leit stendur nú yfir í nágrenni Reykjavíkurflugvallar að dönskum ketti sem slapp út úr einkaflugvél í nótt. Björgunarsveitarmenn taka m.a. þátt í leitinni. Bannað er að flytja gæludýr til landsins, en smithætta getur stafað af þeim.

Flugvélin lenti á Reykjavíkurflugvelli í gærkvöldi. Í morgun kom í ljós að köttur, sem var um borð, var horfinn. Talsvert er búið að leita að kettinum í morgun, en hefur sú leit engu skilað enn sem komið er.

Kötturinn er svartur með hvítan blett í bringunni og með bleika hálsól. Hann er fjögurra ára gamall og heitir Nuki, að því er fram kemur í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Talið er líklegt að kötturinn sé kominn út fyrir flugvallarsvæðið. Í dag hefur m.a. verið leitað í Öskjuhlíðinni.

Flugvélin kom frá Danmörku og millilenti á Reykjavíkurflugvelli á leið sinni til Bandaríkjanna. Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að smithætta geti stafað af kettinum og því mikilvægt að hann finnist.

Kötturinn er örmerktur með númerinu 958-000-002-337-862. Hann er einnig húðflúraður í eyra með númerinu EFP055. 

Þeir sem verða kattarins varir eru beðnir að láta lögreglu eða héraðsdýralækni Matvælastofnunar í suðvesturumdæmi strax vita. Sími lögreglu er 112 og sími héraðsdýralæknis 894-0240. Að sögn eiganda er kötturinn styggur við ókunnuga. 

Í tilkynningunni segir að mikilvægt sé að kötturinn sé ekki tekinn inn á heimili þar sem dýr eru fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert