Leitað að fegursta orðinu í málinu

Nú er leitin að fegursta orði íslenskrar tungu hafin. Allir geta tekið þátt og verður tekið tillit til röksemda þátttakenda fyrir vali sínu þegar orðið verður valið en nefnd mun velja nokkur orð og ástæður úr innsendum tillögum í öllum aldursflokkum sem almenningur getur svo kosið um.

Ástráður Eysteinsson, forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, leggur áherslu á að ástæður fólks þurfi ekki að vera lærður texti heldur einungis séu færð rök fyrir valinu í mjög stuttu máli. Hann segir sjálfur að orð á borð við afi og amma myndu koma sterklega til greina ef hann myndi senda inn tillögur þar sem persónuleg tenging orðanna sé svo sterk. Allar röksemdir koma til greina að hans sögn hvort sem orðin vísi í staði, persónuleg sambönd, húmor eða fagurfræði orðanna. 

Hægt er að senda inn orð og röksemdir á fegurstaordid.hi.is.

Í tilkynningu frá Hugvísindasviðs segir:

<span><span><span>Leit Hugvísindasviðs Háskóla Íslands eftir hugmyndum um fegurstu orð íslenskrar tungu hefst í dag. </span></span></span>

Allir geta sent inn tillögu um fegursta orð tungumálsins á vefsíðunni „fegurstaordid.hi.is“. Lokadagur til að skila tillögum er 22. október 2013. Hentugast er að skila tillögum á heimasíðu söfnunarinnar, en einnig má senda þær í bréfi til Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, Aðalbyggingu, 101 Reykjavík (merkt „Fegursta orðið“). Orðanefnd velur nokkur orð og ástæður úr innsendum tillögum í öllum aldursflokkum og gefst almenningi síðan kostur á að greiða atkvæði um þær tillögur. Stefnt er að því að gefa úrval orðanna út á bók, ásamt umsögnunum sem fylgja þeim.

<span><span><span>Orðasöfnun þessi á bæði að vera leikur og könnun. Veittar verða viðurkenningar fyrir þær tillögur sem dómnefnd þykja skara fram úr – og er þá horft í senn til orðanna sjálfra og þeirra ástæðna sem gefnar eru fyrir vali þeirra. Þátttakendum verður skipt í þrjá aldurshópa: þá sem fæddir eru eftir ársbyrjun 1998, þá sem fæddir eru á árabilinu 1988 til 1997, og þá sem verða 26 ára eða eldri á árinu 2013. Hver þátttakandi getur einungis lagt fram eina tillögu. Einn þátttakandi í hverjum flokki hlýtur ferð fyrir tvo innanlands í verðlaun en einnig verða veitt þrenn vegleg bókaverðlaun.</span></span></span> <span><span><span><br/></span></span></span> <span><span><span>Aldrei getur orðið fræðilega rétt niðurstaða í „samkeppni“ sem þessari, enda er þetta öðrum þræði leikur og skemmtan, en líka könnun á veigamiklum þáttum í tengslum okkar við tungumálið. Mikilvægt er að sem flestir taki þátt: börn, unglingar og fullorðnir; karlar og konur; fólk úr þéttbýli jafnt sem dreifbýli; fólk með mismunandi nám, störf og lífsreynslu að baki; útlendingar eða fólk af erlendu bergi brotið sem lært hefur íslensku sem annað mál; Íslendingar sem búa erlendis, eru tvítyngdir eða hafa lengi verið í nánum tengslum við önnur mál jafnt sem íslensku.</span></span></span> <span><span><span>Öll orð koma til greina: nafnorð, sagnorð, lýsingarorð, smáorð, upphrópanir, nýyrði, slangurorð, tökuorð, töluorð, töfraorð o.s.frv. Ástæður fyrir vali orða geta verið af ýmsu tagi, allt frá hlutlægum rökstuðningi yfir í tilfinningalegar og persónulegar skýringar, og vísa má til mikilvægrar stöðu orðsins í einhverju samhengi. Ástæðan getur rúmast í einni línu en má vera lengri. Hugvísindasvið áskilur sér rétt til að birta orð og ástæður fyrir vali þeirra, en nöfn þátttakenda verða einungis birt að fengnu leyfi frá þeim.</span></span></span> <span><span><span><br/></span></span></span> <span><span><span>Tilgangur leitarinnar er í fyrsta lagi að safna tillögum almennings um fegurstu orð tungumálsins, ásamt ástæðum fyrir vali hvers og eins. Í öðru lagi að skapa víðtæka umhugsun og umræðu, í gamni og alvöru, um íslenska tungu og eiginleika hennar. Í þriðja lagi að efla vitund um eðli, notkun, virkni og veruleika tungumálsins sem við hrærumst í – og um fegurð þess og mikilvægi í ýmsum skilningi og ýmsu samhengi. Í fjórða lagi að minna á stöðu íslenskunnar sem er mál meðal annarra mála, bæði í alþjóðasamhengi en einnig á Íslandi, þar sem fjöldi fólks á sér annað móðurmál, m.a. íslenskt táknmál.</span></span></span>
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka