Óljóst er hvað hefur orðið um bátinn Markús ÍS 77, sem var dreginn úr Flateyrarhöfn sl. fimmtudag. Færa átti Markús til Ísafjarðar til niðurbrots, en þangað hefur báturinn ekki komið.
Fjallað er um þetta mál á fréttavefnum bb.is. Markús sökk í höfninni á Flateyri í byrjun ágúst, eins og fram kom í frétt á mbl.is. Báturinn hafði legið bundinn við bryggju á Flateyri nokkur misseri. Það tókst hins vegar að koma bátnum á flot nokkrum dögum síðar.
Í frétt bb.is segir að Kristbjörn ÍS hafi dregið Markús úr höfn á Flateyri fimmtudaginn 19. september. Guðmundur Kristjánsson, hafnarstjóri Ísafjarðarbæjar, staðfestir að ferðinni hafi verið heitið til Ísafjarðar þar sem báturinn átti að fara í niðurrif. Áður var búið að hirða vélar og annað brotajárn úr bátnum. Báturinn hefur hins vegar ekki skilað sér til Ísafjarðar.
Ekki hefur verið tilkynnt til lögreglu að bátsins sé saknað.
Í 16. grein laga um rannsókn samgönguslysa segir að „verði sjóslys eða sjóatvik beri sérhverjum sem um það veit að tilkynna það rannsóknarnefnd samgönguslysa án ástæðulauss dráttar eða ganga úr skugga um að nefndin hafi fengið vitneskju um slysið.“ Þar bera meðal annars stjórnendur, eigendur eða útgerðarmenn skipa sérstaka skyldu til að tilkynna. Brot gegn ákvæðum 16. greinarinnar varða sektum. Markús ÍS er í eigu Reddingar ehf. en Kristbjörg ÍS, er í eigu GSA ehf. Ekki náðist í forsvarsmenn Reddingar ehf. eða GSA ehf. við vinnslu fréttarinnar.