Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, mun eiga fund með forseta Rússlands, Vladimír Pútín, á morgun þar sem þeir munu ræða þróun samstarfs á norðurslóðum m.a. í ljósi áheyrnaraðildar forysturíkja í Asíu og Evrópu að Norðurskautsráðinu.
Einnig verður rætt um vaxandi samstarf Íslendinga og Rússa á sviðum viðskipta, ferðaþjónustu og orkumála sem og menningaratburði á Íslandi og í Rússlandi í tengslum við það að sjötíu ár eru liðin frá því að löndin tóku upp formlegt stjórnmálasamband, samkvæmt fréttatilkynningu frá forsetaembættinu.
Forseti Íslands situr í dag og á morgun ráðstefnu um málefni Norðurslóða, The Arctic: Territory of Dialogue, sem rússneska landfræðifélagið efnir til í Salekhard í Yamal Nenets fylki í Norður-Rússlandi.
„Á ráðstefnunni, sem einkum er sótt af vísindamönnum, sérfræðingum, kjörnum fulltrúum og embættismönnum, verður aðallega fjallað um nauðsyn umhverfisverndar á Norðurslóðum og hvernig hin viðkvæma náttúra verður best varin fyrir auknum umsvifum, framkvæmdum og atvinnurekstri á svæðinu.
Auk forseta Íslands munu forseti Rússlands, Vladimír Pútín, og forseti Finnlands, Sauli Niinistö, flytja ræður á ráðstefnunni,“ segir í tilkynningu.
Á morgun mun forseti Íslands eiga fund með forseta Finnlands um aukið samstarf Íslendinga og Finna á Norðurslóðum en málþing um Norðurslóðir var haldið í tengslum við opinbera heimsókn forseta Finnlands til Íslands fyrr á þessu ári.