„Ástandið fer illa í mig . Ég er óöruggur og mér líður illa og ég get ekki ímyndað mér annað en að aðrir krabbameinssjúklingar upplifi það sama. Það er orðið ofboðslegt óöryggi að verða veikur á Íslandi eins og staðan er núna.“
Þetta segir Reynir Lord í samtali í Morgunblaðinu í dag. Hann er með fjórða stigs sortuæxli og er í krabbameinsmeðferð á Landspítalanum. Reynir greindist fyrst fyrir tveimur árum og aftur í október í fyrra. Hann hafði verið með sama lyflækni frá upphafi en sá hætti störfum á Landspítalanum í sumar.
„Trúnaðarlæknir minn til tveggja ára hætti núna í sumar og mín upplifun af því var gríðarleg sorg. Það lagðist þungt á mig og ég varð neikvæðari í garð sjúkdómsins. Ég fékk nýjan lækni sem er góður en hann gat ekki hitt mig tvö fyrstu skiptin eftir að ég missti hinn lækninn, í fyrra skiptið var hann í fríi og í seinna skiptið var hann á stofugangi en samt átti ég pantaðan tíma hjá honum," segir Reynir meðal annars í samtalinu.