Vöktuðu Gálgahraun í nótt

„Við stöndum bara hér fyrir vinnuvélunum og þær hafa ekkert verið hreyfðar í dag. Við mættum eldsnemma í morgun og tjölduðum hérna og slógum upp búðum. Hér hafa verið um 30 manns,“ segir Gunnsteinn Ólafsson, einn forsvarsmanna Hraunavina, í samtali við mbl.is en samtökin hafa að undanförnu með aðgerðum sínum komið í veg fyrir framkvæmdir við nýjan Álftanesveg í gegnum Gálgahraun.

Gunnsteinn segir að Hraunavinir hafi verið á svæðinu í gær þangað til vinnuvélarnar fóru af svæðinu. Síðan hafi tekið við vakt í nótt þar sem ekið hafi verið framhjá svæðinu reglulega og fylgst með úr sjónaukum hvort framkvæmdir yrði hafnar í skjóli nætur. „Þeir eru hérna núna að merkja fornleifar með keilum þannig að þær séu ekki skemmdar. Það er auðvitað besta mál, það er enginn ágreiningur um það.“

Hann segir aðspurður að engin samskipti hafa átt sér í stað á milli Hraunavina og starfsmanna verktakans í morgun. Ætlunin er að halda áfram að koma í veg fyrir framkvæmdir í dag. „Já, þangað til að það fæst einhver botn í þetta. Við erum að vonast til þess að vegamálastjóri og innanríkisráðherra taki af skarið með það að þessi framkvæmd verði stöðvuð á meðan málið er fyrir dómstólum.“

Hraunavinir hafa annars vegar kært framkvæmdina á þeim forsendum að hún sé ólögleg og hins vegar farið fram á lögbann á hana á meðan ekki hefði fallið dómur í fyrra málinu. „Sýslumaður neitaði okkur um lögbann á þeim forsendum að við ættum ekki lögaðild að málinu. En það er grundvallaratriði í íslenskri náttúruvernd að það verði hrakið vegna þess að við eigum aðild að slíkum málum með Árósarsamkomulaginu og breytingum á EES-samningnum varðandi mat á umhverfisáhrifum sem gerðar voru í fyrra.“

Fram kom í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gær að Vegagerðin ætlaði að boða þá sem stæðu að mótmælunum á sinn fund en að sögn Gunnsteins hafa Hraunavinir ekki verið boðaðir á slíkan fund.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert