„Þetta er held ég dæmalaust að ráðherra ráðist svona blóðugt á heilan lagabálk og ryðji honum frá en er svo sem í anda annars sem Sigurður Ingi hefur gert sem umhverfisráðherra. Hann hefur ekki stigið varlega til jarðar í þeim efnum. Það hefur verið töluverður fyrirgangur og það virðist vera að hann fjandskapist við það sem flokkast undir náttúruvernd, því miður. Og það er náttúrulega svolítið snúið að gegna embætti umhverfisráðherra með þau sjónarmið.“
Þetta segir Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og fyrrverandi umhverfisráðherra, í samtali við mbl.is en arftaki hennar í embætti, Sigurður Ingi Jóhannsson, hyggst fella úr gildi lög um náttúruvernd sem samþykkt voru á Alþingi skömmu fyrir þinglok í vor og ætlað var að taka gildi 1. apríl 2014. Þess í stað er núgildandi náttúruverndarlögum frá 1999 ætlað að halda gildi sínu en ráðherrann segir í samtali við Morgunblaðið í dag að ætlunin sé að fá ráðrúm til þess að fara yfir athugasemdir sem bárust við frumvarp að lögunum á sínum tíma og stuðla að meiri sátt um þau. Til stendur að leggja fram nýtt frumvarp að náttúruverndarlögum á vorþingi á þeim forsendum.
Brotið gegn samkomulagi um þinglok
Svandís segir það rétt að miklar umræður hafi átt sér stað um frumvarpið að lögunum. Fyrri ríkisstjórn hafi sett svokallaða hvítbók um málið strax út í umræðuna meðal annars með fundum víða um land þar sem komið hafi fram ákveðið viðnám hjá tilteknum hagsmunaaðilum. Gerðar hafi verið breytingar á frumvarpinu allt fram á síðustu stundu áður en það var samþykkt til þess að koma til móts við hagsmunaaðila. „Þannig að alla leiðina var verið að reyna að koma til móts við þau sjónarmið en þó alltaf með það að leiðarljósi að náttúruverndarlög snúast um að vernda náttúruna. Það er grundvallaratriði.“
Hún bendir ennfremur á að samþykkt náttúruverndarlaganna síðastliðið vor hafi verið hluti af samkomulagi um þinglok. „Til viðbótar við allt annað þá raunverulega stendur ráðherrann ekki við þá málamiðlun sem bæði Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn voru aðilar að og var forsenda þess að málið fékkst yfir höfuð borið upp til atkvæða á Alþingi því staðan var þannig í þinginu á þessum tíma að þáverandi stjórnarandstaða stöðvaði hvert einstaka mál með málþófi, ekki bara stór mál heldur lítil mál líka.“
Eðlilegra að byggja á nýju lögunum
Svandís segir að ef menn hefðu enn haft efasemdir um eitthvað í náttúruverndarlögunum hefði verið hægt að nota tímann fram að 1. apríl á næsta ári, eða allavega fram að áramótum, og leggja síðan fram breytingartillögur á vorþingi við þau. „Þetta er mjög ítarlegur lagabálkur sem á sér mjög langan aðdraganda og byggði á mikilli vinnu og í nefndinni frá fyrsta degi eru bæði forstjóri Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisverndarstofnunar sem eru þær tvær stofnanir ráðuneytisins sem fara með náttúruvernd og umsýslu friðlýstra svæða þannig að þessir aðilar hafa verið við borðið í hverju einasta skrefi til þess að tryggja það að það væri samkvæmni í málinu. Þannig að ráðherrann er þarna líka að slá striki yfir vinnu sinna eigin stofnana.“
Þingflokkur VG hefur sent frá sér ályktun vegna málsins sem finna má í viðhengi.