100 skiptinemar gengu Fimmvörðuháls

Um 100 skiptinemar gengu yfir Fimmvörðuháls um sl. helgi, en ferðin var á vegum ESN Reykjavík, sem er félag erlendra nema við Háskóla Íslands. Ferðin hófst í Skógum, gengið var yfir hálsinn og lauk ferðalaginu í Básum, en þar gisti hópurinn yfir nótt.

Upphaflega átti ferðin að vera í smærri kantinum, eða í heildina um 30 manna ferð með hópstjórum frá ESN Reykjavík. Þegar byrjað var að bóka í ferðina þá varð fljótt ljóst að áhuginn á ferðinni var miklu meiri, svo ákveðið var að stækka ferðina til að fleiri gætu komist að.

Tvær rútur, sem voru fullar af skiptinemum, lögðu af stað frá HÍ. Meirihluti hópsins gekk yfir Fimmvörðuháls en sumir létu nægja að fara beint í Bása.

Veðrið lék við hópinn

„Restin gekk frá Skógum um klukkan 11 og tók ferðin alls 9 og hálfan tíma, en það mætti segja að veðrið hafi leikið við okkur því það var svaka blíða alla ferðina þó að við höfum komið til baka rétt eftir að það myrkvaði,“ segir Kristinn Helgi Hilmarsson, hjá ESN Reykjavík, sem sendi mbl.is ferðasögu hópsins.

„Það var enn orka í skiptinemunum daginn eftir, þrátt fyrir að sumir hafi skemmt sér aðeins um kvöldið áður, en ákveðið var að ganga um Stakkholtsgjá þar sem sumir blotnuðu aðeins í lappirnar við að stökkva lækina. Þegar þeirri göngu var lokið var nánast öll orka búin en samt tókum við okkur til og gengum að lokum Stóra Dímon,“ segir Kristinn.

Það var svo um sjöleytið sem ferðinni lauk eftir mikla erfiðleika á leiðinni heim í rútunum, en þær má rekja til bilunar á bílunum. Eftir það fóru allir strax heim að sofa enda allir mjög þreyttir eftir gönguna.

„Taka skal fram að ESN Reykjavík fylgdist vel með veðurspánni áður en lagt var af stað í þessa ferð og sáum við til þess að allir væru vel klæddir, en þeir sem ekki þóttu nógu vel klæddir var neitað að fara Fimmvörðuháls. Auk þess var haft samband við Landsbjörg og látið vita,“ segir í tilkynningu frá ESN Reykjavík,“ skrifar Kristinn Helgi.

ESN Reykjavík er félag skiptinema á Íslandi, en ESN eru alþjóðleg samtök sem stafrækja þjónustu í formi sjálfboðavinnu fyrir skiptinema háskóla í 36 löndum Evrópu.

Nánar upplýsingar um félagið er að finna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert