Íslendingar hafa löngum skemmt sér yfir sögum af hinum seinheppnu Bakkabræðrum sem voru orðlagðir fyrir heimskupör sín. Þessum svarfdælsku bræðrum hefur lítill sómi verið sýndur í gegnum tíðina, en nú hefur orðið breyting þar á, því kaffihúsið Gísli, Eiríkur og Helgi var nýverið opnað á Dalvík og til stendur að opna þar sögusetur þeim til heiðurs í vor.
Eigendur staðarins eru hjónin Kristín Aðalheiður Símonardóttir og Bjarni Gunnarsson. Kristín segir kaffihúsið hafa hlotið góðar viðtökur.