Fagna afturköllun náttúruverndarlaga

Ljósmynd/Skógrækt ríkisins

Stjórn Skógræktarfélags Íslands fagnar ákvörðun umhverfis- og auðlindaráðherra um að afturkalla lög um náttúrvernd sem Alþingi samþykkti í vor.

 Skógræktarfélag Íslands gagnrýndi frumvarpið með ýmsum hætti frá upphafi auk þess sem félagið fjallaði einnig um svokallaða Hvítbók sem það taldi hæpna grunnstoð til að byggja á, segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

 „Nefnd er vann að undirbúningi og gerð frumvarpsins allt frá árinu 2009 var sýnilega skipuð hóp sérfræðinga, lögfræðinga og forsvarsmanna stofnana. Það kom því ekki á óvart að niðurstaða frumvarpsins yrði stofnanamiðuð eftirlitsvæðing náttúruverndar með auknum boðum og bönnum, refsiákvæðum og viðurlögum en auk þess tilkalli til stóraukinna fjármuna úr ríkiskassanaum,“ segir í tilkynningunni.  

 Skógræktarfélag Íslands gagnrýndi einnig „samráðsleysi og óbilgirni“ í því sambandi sem dæmi sanna. Nauðsynlegt er, að mati félagsins, að ráða bót á slíkum vinnubrögðum við endurskoðun náttúrverndarlaganna.

Þá kom einnig á óvart að gerðar voru alvarlegar tilraunir til að þrengja stöðu skógræktar og uppgræðslu hér á landi.

 „Skógræktarfélag Íslands telur í ljósi þeirra miklu gagnrýni sem kom fram á frumvarpið þar sem hátt í 200 umsagnir komu fram að nauðsynlegt sé að endurskoða þau frá grunni. Náttúrvernd á Íslandi er mikilvæg. Það er hins vegar nauðsynlegt að um þann lagaramma sem lagður er til grundvallar ríki almenn  sátt  og þau hafi víðtæka skírskotun í samfélagi hvers tíma,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka