Læðan Nuk fær að lifa

Ákveðið hefur verið að læðan Nuk fái að lifa og hefur eigandi hennar fengið heimild til að fara með hana úr landi þar sem ljóst sé að ekki var verið að flytja læðuna hingað til lands og óhapp varð þess valdandi að hún slapp laus.

Á þriðjudag slapp læðan út úr einkaflugvél á Reykjavíkurflugvelli, þar sem vélin hafði viðkomu á leið sinni frá Evrópu til Bandaríkjanna. Læðan fannst aftur í gær í aðeins nokkur hundruð metra frá flugvélinni.

Matvælastofnun aflaði nákvæmra upplýsinga um heilsufar læðunnar, bólusetningar og á hvaða stöðum hún hefði verið undanfarna tvo mánuði. Á grundvelli þessara upplýsinga og þess að líklegt má teljast að læðan hafi ekki komist í nána snertingu við aðra ketti á þessum sólarhringi var metið að litlar líkur væru á að smitsjúkdómar sem ekki eru til staðar hér á landi hafi borist til landsins við þetta óhapp. Stofnunin hefur í varúðarskyni ákveðið að framkvæma heilbrigðisskoðun á læðunni og taka úr henni sýni til rannsókna, segir á vef Matvælastofnunar.

Í lögum um innflutning dýra segir að dýrum, sem flutt eru inn án heimildar, skuli tafarlaust lógað og skrokkum eytt svo eigi stafi hætta af. Tilgangur laganna er að fyrirbyggja að smitsjúkdómar berist til landsins. Í ljósi atvika í þessu tiltekna máli er ljóst að ekki var verið að flytja læðuna inn til landsins og óhapp var þess valdandi að hún slapp út úr flugvélinni. Matvælastofnun lítur því svo á að ekki sé þörf á að fara fram á aflífun á dýrinu og hefur ákveðið að heimila eiganda þess að fara með það úr landi.

Danski kötturinn fundinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert