Mikil stemning á baráttufundi

Fullt var út úr dyrum á fundi kennara í Iðnó …
Fullt var út úr dyrum á fundi kennara í Iðnó um kjaramál. mbl.is/Styrmir Kári

Mikill hugur var á baráttufundi grunnskólakennara sem fór fram í Iðnó. Þar eru um 500 manns samankomnir og þurfa margir að standa utan dyra. Ljóst er að kennarar eru mjög óánægðir með sín launakjör. Þeir segja launin vera tímaskekkju sem verði að leiðrétta.

Í lok fundarins voru greidd atkvæði um það atriði sem kennarar vilja leggja áherslu á í komandi kjaraviðræðum. Svarið var einfalt; þeir vilja leggja áherslu á launin.

Það hefur komið skýrt fram, að kennarar eru mjög ánægðir í sínu starfi - en þeir segja launin óboðleg.

Tilbúin að fara í harkalegar aðgerðir

Hulda María Magnúsdóttir, sem kom að skipulagningu fundarins, var önnur á mælendaskrá í kvöld. Hún segir að mætingin í kvöld hafi farið fram úr sínum björtustu vonum og hún sýni að kennarar séu reiðubúnir að standa upp og taka skrefið í átt að breytingum.

Krafa kennara er 20 prósent launahækkun.

Hún benti á að í lok febrúar verði samningar grunnskólakennarar lausir. Því sé mikilvægt að halda dampi í allan vetur og minna á kröfur kennara.

Hulda María tók fram, að hún væri tilbúin að fara í harkalegar aðgerðir til að sýna fram á það hvað það þýði fyrir samfélagið ef kennarar leggja niður störf.

Hún segist mæta skilningsleysi víða; fólk hafi m.a. haldið því fram að allir geti kennt og ef kennarar vilji fá hærri laun þá eigi þeir einfaldlega að finna sér aðra vinnu.

Hulda María segir að kennarar sinni ekki bara einhverri gæslu. Þeir séu að sinna lögbudinni þjónstu og geri það mjög vel.

Er ekki í lagi

Hún sagði að grunnlaun sín væru 331 þúsund kr. á mánuði, en hún tekur alla aukavinnu sem henni býðst. Hulda María, sem er 33 ára einstæð móðir, segist vera að íhuga að flytja aftur heim til móður sinnar.

„Þetta er ekki lagi,“ sagði hún svo í kjölfarið við fögnuð viðstaddra.

Hún greindi frá því að hún hefði áður unnið í banka. Þar hafi hún hins vegar verið að mygla í starfi. Sú vinna væri ekki nokkurrar fjárhæðar virði.

Hún skilur ekki hvers vegna grunnskólakennarar séu metnir lægra heldur en aðrar háskólamenntaðar stéttir. Spurningin sé því sú, hvað ætli kennarar að taka þessu lengi. Þeir þori vart að ræða launin sín opinberlega, en þeir séu allir sammála um það að starfið sé frábært og gefandi. Hulda María segist starfa sem kennari því hún telur sig skipta máli í lífi nemenda sinna. Það sé svo margt sem gefi starfinu gildi - þessir litlu sigrar.

„Ég er sérfræðingur á mínu sviði og ég vil fá laun í samræmi við það. Það er ekkert ósanngjarnt við það.“

Launin tímaskekkja

Valgerður Eiríksdóttir, kennari í Fellaskóla, tók í svipaðan steng. Hún segist upplifa fundinn á þann veg að nú væri eitthvað að fara gerast. Það sé órlangt síðan kennarar hittust á svona baráttufundi.

Hún segir að barátta kennara hafi verið löng og ströng, en átta ár eru liðin frá því síðasti samningur tók gildi.

Hún hvatti forystuna til að standa vörð um kjör kennara. Laun kennara væru tímaskekkja sem yrði að leiðrétta.

Mikil steming er á fundinum.
Mikil steming er á fundinum. mbl.is/Jón Pétur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert