Vilja gera úttekt á stöðu ESB-viðræðna

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sést hér ásamt Jose Manuel Barroso, …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sést hér ásamt Jose Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB, á blaðamannafundi í Brussel í júní sl. AFP

Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands hafa ákveðið að standa fyrir úttekt á aðildarviðræðum við Evrópusambandið, þróun ESB og valkostum í efnahagsmálum. Samtökin telja öll æskilegt að aðildarviðræðum við ESB verði lokið og að besti fáanlegi samningur um aðild verði borinn upp í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta kemur fram á vef ASÍ.

 Þar segir, að í ljósi þess að ríkisstjórnin hafi ákveðið að gera hlé á aðildarviðræðum þá telji samtökin mikilvægt að lagt verði mat á stöðu aðildarviðræðna við ESB og hvaða áhrif hléið hafi á framvindu viðræðna. Í hjálögðu skjali má sjá yfirlit yfir þau álita- og úrlausnarefni sem samtökin telja mikilvægt að verði reifuð. 

„Samtökin óska eftir samstarfi við stjórnvöld við gerð úttektarinnar, enda um mikilvæg álitaefni að ræða fyrir efnahagslega framvindu í landinu. Samtökunum eru ljós ákvæði Stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum og að utanríkisráðherra hafi lýst yfir að viðræður standi yfir við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um úttekt á aðildarviðræðunum við ESB. Það er mat samtakanna að þessar tvær úttektir geti vel farið saman.

Telji stjórnvöld ekki ávinning af slíku samstarfi munu samtökin engu að síður standa fyrir úttekt á þessum málum. Hlutlæg og greinargóð úttekt af þessu tagi er lykilforsenda þess að hægt sé að meta hvaða valkostir séu best til fallnir að tryggja samkeppnishæfni atvinnulífsins til lengri tíma og um leið skapa best lífskjör heimilanna í landinu,“ segir í tilkynningu á vef ASÍ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka