Bæjarráð Hafnarfjarðar hefur beint því til bæjarstjórnar sveitarfélagsins að samþykkja að veita Icelandair vilyrði fyrir lóð í sveitarfélaginu. Samkvæmt umsókn Icelandair fer félagið fram á 16.000 fermetra lóð og að hún verði afmörkuð samkvæmt samkomulagi við skipulags- og byggingasvið Hafnarfjarðar.
Í umsókninni kemur fram að á lóðinni verði bygging fyrir starfsemi tengda Icelandair, eins og kennslusetur, flugherma, skrifstofur og fleira í þeim dúr. Lóðin sem sótt er um er á milli Selhellu 1 og Tjarnavalla 15.
Jafnframt sótti Icelandair um að aðalskipulagi svæðisins verði breytt til samræmis við fyrirhugaða starfsemi og um leyfi til að vinna tillögu að deiliskipulagi lóðarinnar.
Bæjarráð fól á fundi sínum í vikunni skipulags- og byggingarfulltrúa og skipulags- og byggingarráði úrvinnslu skipulagsþátta umsóknarinnar. Þá lagði bæjarráð til við bæjarstjórn að beita 6. gr. samþykktar um gatnagerðargjald um sérstaka lækkunarheimild vegna lóðarinnar þar sem um sérstaka atvinnuuppbyggingu er að ræða.
Athugasemd kl. 17:06
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, tekur fram í samtali við mbl.is, að það standi ekki til að flytja núverandi höfuðstöðvar fyrirtækisins.