Susanne Alsing, eigandi dönsku læðunnar Nuk sem slapp úr einkaþotu á Reykjavíkurflugvelli í vikunni, hefur ákveðið láta fundarféð sem hún hét hverjum þeim sem myndi finna köttinn renna til Dýrahjálpar Íslands og Kattholts, en það var Alsing sjálf sem fann kisa á flugvallarsvæðinu.
Hún segir í bréfi sem hún sendi Dýrahjálp Íslands að hún hafi ákveðið að styrkja samtökin vegna þess góða starfs sem þau vinna. Alls renna 70 þúsund kr. til Dýrahjálpar Íslands og 30 þúsund kr. fara til Kattholts.
Forsvarsmenn Dýrahjálpar Íslands segjast vera afskaplega þakklátir þessu framlagi sem muni koma sér mjög vel í þeirra starfi.
Alsing vill koma þökkum til allra þeirra sem aðstoðuðu við leitina og sýndu henni stuðning.
„Það var ótrúlegt að sjá hvernig fólk kom saman á Íslandi til að taka þátt í þessu. Ég hef hitt svo mikið af hjálplegu og vingjarnlegu fólki sem tók sér tíma til að leita að Nuk og gekk um með vasaljós og kallaði á hana,“ segir Alsing.
Hún bætir við því við að Nuk hafi verið týnd í um einn og hálfan sólarhring. Læðan sé mikill inniköttur en þegar hún sé úti þá haldi hún sig ávallt nálægt heimili sínu.
„Hún verður auðveldlega hrædd og umgengst ekki önnur dýr, þar á meðal aðra ketti. Nuk var geld þegar hún var sex mánaða gömul. Þar sem ég þekki Nuk mjög vel, þá tel ég að hún hafi hlaupið beina leið að húsnæði Flugskólans, sem er um 150 metra frá flugvélinni, þegar hún slapp út og þar var hún í felum. Ég fann hana þar á miðvikudagskvöld um kl. sjö. Ég hafði gengið um svæðið og kallaði nafn hennar og skyndilega heyrði ég mjálm og lítið svart höfuð birtist. Ég settist niður og talaði mjúklega til hennar. Hún kom til mín og ég lyfti henni upp og gekk með hana í átt að vélinni. Um nóttina var ég með Nuk í flugvélinni þar sem hún át, drakk vatn og var afar kát,“ segir Alsing og bætir við að hún hafi einnig verið afar kát.
„Þegar Nuk hvarf hét ég fundarfé en þar sem ég fann hana sjálf tók ég þá ákvörðun að láta féð renna til tveggja samtaka sem eru að vinna frábært starf. Ég vil gefa samtökunum Dýrahjalp þar sem ég fékk mikla aðstoð og stuðning 70.000 íslenskar krónur og samtökunum Kattholt, sem ég heyrði margt mjög gott um er leitin að Nuk stóð yfir, en samtökin standa sig frábærlega í því að finna ný heimili fyrir týnda ketti eða koma þeim aftur til eigenda sinna, vil ég gefa 30.000 kr.“ segir Alsing í bréfinu.
Hún tekur fram í lokin að Nuk líði vel. „Það er kraftaverk að hún sé kominn til baka og við elskum hana svo mikið. Takk fyrir Ísland, takk kærlega fyrir alla hjálpina og allan stuðninginn.“