Landsamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) telur ekki rétt að ljúka viðræðum við Evrópusambandið um aðild að sambandinu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá LÍÚ.
Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og Viðskiptaráð Íslands sendu forsætisráðherra bréf dagsett 24. september þar sem tilkynnt var að samtökin hafi ákveðið að standa fyrir úttekt á aðildarviðræðum við Evrópusambandið, þróun ESB og valkostum í efnahagsmálum. Jafnframt kemur fram að samtökin telji öll æskilegt að aðildarviðræðum verði lokið og að besti fáanlegi samningur um aðild verði borinn upp í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Af þessu tilefni vill Landssamband íslenskra útvegsmanna ítreka að afstaða samtakanna til aðildar að ESB hefur ekki breyst. Samtökin hafa lýst því yfir að þau telji að hagsmunir Íslands séu best tryggðir utan ESB. Af því leiðir að Landssamband íslenskra útvegsmanna styður ekki aðildarviðræður við ESB og er því ekki þeirrar skoðunar að æskilegt sé að aðildarviðræðum verði lokið eins og fram kemur í erindi Samtaka Atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og Viðskiptaráðs Íslands.