Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra telur að úttekt sem forystumenn ASÍ, SA og Viðskiptaráð Íslands hafa ákveðið að gera á stöðu aðildarviðræðna við Evrópusambandið, sé liður í að kynna sjónarmið forystumanna þessara samtaka um málið.
Í bréfi samtakanna til nokkurra ráðherra kemur fram að þau telji æskilegt að aðildarviðræðum við ESB verði lokið og að besti fáanlegi samningur um aðild verði borinn upp í þjóðaratkvæðagreiðslu.
„Hvað varðar erindið sjálft þá svara þeir því eiginlega í upphafi bréfsins hvað eigi að koma út úr þessari úttekt og rökstuðningur fyrir því hvers vegna eigi að fylgja þeirri stefnu sem þessir forystumenn hafa boðað í Evrópumálum og óljóst hvaða hlutverki stjórnvöld gætu gegnt í því,“ segir Sigmundur Davíð m.a. um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.