Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor við Háskóla Íslands, segir ekkert nýtt koma fram í dómi Hæstaréttar frá því fyrr í vikunni um heimild slitastjórna til að greiða kröfuhöfum sínum í krónum, og að dómurinn hafi verið oftúlkaður.
Dómurinn feli ekki í sér að slitastjórnunum sé skylt að greiða út í íslenskum krónum, en þeim hafi samkvæmt gildandi lögum ávallt verið heimilt að greiða erlendum kröfuhöfum í krónum ef til greiðsluþrots kæmi.
„Það kemur ekkert nýtt fram því það eru bara reglur gjaldþrotalaganna sem segja til um þetta. Bankarnir eru í slitameðferð og reglur laganna gilda um flest atriði þeirra, þar á meðal það að þeim er heimilt en ekki skylt að greiða kröfuhöfum sínum í krónum frekar en gjaldeyri.“
Hann segir jafnframt að hlutverk slitastjórnanna sé að hámarka eignir búsins og ákvörðunin um hvernig útgreiðslum úr þeim sé háttað sé ákvörðun slitastjórnanna.