Engin framtíðarsýn í verðlags- né gengismálum

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Engar vísbendingar eru um að krónan eigi eftir að styrkjast á næstu árum. Seðlabanki Íslands hefur enga framtíðarsýn á verðlags- né gengismálum aðra en að staðan lagist að þremur árum liðnu. Þetta segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.

„Ríkisstjórn hefur ekki sýnt fram á stefnu í gjaldmiðlamálum aðra en þá að loksins séu komnir til valda menn sem geti stýrt íslensku krónunni. Af hverju ætti það að ganga í dag eftir tæplega aldarhrun gjaldmiðilsins? Sú stefna bendir ekki til þess að verðbólga verði lág hér á landi á komandi árum. Engar vísbendingar eru um að krónan eigi eftir að styrkjast á næstu árum, síður en svo þá bendir flest til þess að hún muni gefa eftir. Seðlabanki Íslands hefur enga framtíðarsýn á verðlags- né gengismálum aðra en að staðan lagist að þremur árum liðnum enda eiga þeir að stefna að lægri verðbólgu innan þess tímaramma. Engin raunveruleg úrræði eða tillögur frá þeim standa til boða sem gætu leitt okkur á veg stöðugleika á næstu 10 árum,“ segir Kristján í pistli á heimasíðu RSÍ.

Kristján segir að nú þegar aðilar vinnumarkaðarins séu að undirbúa gerð kjarasamninga sé eðlilega horft til stöðu þjóðarbúsins og hvert það stefni á næstu mánuðum enda taki launahækkanir mið af þeim verðlagsbreytingum sem hafa orðið og væntanlegar séu. Hávær krafa hafi á undanförnum árum verið að auka kaupmátt launa.

„Á sama tíma leita aðilar allra leiða til þess að kalla fram skýra sýn á væntanlega stöðu og vilja rýna í framtíðarsýn stjórnvalda. Aðilar hafa jafnframt kallað eftir samstarfi um ýmis mál og má þar nefna óháða úttekt á stöðu aðildarviðræðna við ESB. Töldu aðilar er standa að ASÍ, þar á meðal fulltrúar Rafiðnaðarsambands Íslands, það vænlegast til árangurs fyrir þjóðina að staðan yrði metin í heild sinni þannig að þjóðin yrði upplýst hversu miklu hefur verið lokið og hversu langt ferli yrði fyrir höndum. Afstaða samtakanna hefur jafnframt verið sú að æskilegast væri að ljúka þessum viðræðum með sem hagstæðustum samningi og þjóðin tæki að lokum afstöðu til þessara mála. Það á ekki að vera í höndum fárra einstaklinga sem sitja í ríkisstjórn að taka þá ákvörðun.

Eitt stærsta og mikilvægasta málefni er snýr að launþegum þessa lands er gjaldmiðill þjóðarinnar. Í dag hafa flest fyrirtæki sem eru í útflutningsgreinum tekið upp annan gjaldmiðil í viðskiptum enda þola fyrirtæki illa þær sveiflur sem hafa verið á íslensku krónunni á undanförnum áratug. Það er jafnframt mat aðila að ef við ætlum að byggja á stöðugleika til framtíðar þá verði það ekki gert á meðan gjaldmiðillinn er óstöðugur. Verðmæti útflutnings sveiflast í samræmi við þann gjaldmiðil. Samanburður launa sveiflast í samræmi við gjaldmiðilinn. Vöruverð í landinu sveiflast í samræmi við gjaldmiðilinn. Allt þetta eykur óstöðugleika.

Nú er það svo að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar vilja alls ekki samtal um nein málefni sem eru þeim ekki að skapi. Alls ekki má ræða málefni sem eru launþegum til hagsbóta. Alls ekki!“ segir Kristján.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert