„Dómur Hæstaréttar kemur heim og saman við það sem við sögðum í kosningabaráttunni í vor,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, en í dómi Hæstaréttar segir að slitastjórnum gömlu bankanna beri engin skylda til að greiða kröfuhöfum í erlendum gjaldeyri.
Sigmundur segir eðlilegt að greitt verði út í íslenskum krónum ef búin verða sett í greiðsluþrot.
„Núna ætti að vera kominn sterkur hvati fyrir kröfuhafa til að leita lausna,“ segir Sigmundur, enda ljóst að kröfuhafar sjái sér ekki hag í því að fá kröfur sínar greiddar út í íslenskum krónum meðan gjaldeyrishöft eru enn við lýði.