Laun fyrir stjórnarsetu í lífeyrissjóðum hafa hækkað um allt að 158% á einum áratug. Laun fyrir setu í stjórn fjögurra stærstu lífeyrissjóðanna hafa hækkað um 68% frá árinu 2008.
Stjórnarformaður Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, LSR, fékk greiddar 127 þúsund krónur á mánuði árið 2007 en fékk 147 þúsund árið 2012. Í ár fær hann greiddar 225 þúsund krónur í mánaðarlaun, 53% hærra en í fyrra.
Hæstu stjórnarsetulaunin fær formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, en hann fær 270 þúsund krónur á mánuði fyrir störf sín, að því er fram kemur í umfjöllun um laun fyrir stjórnarsetu í lífeyrissjóðum í Sunnudagsmogganum.