Núningur milli hátíðanna

Upp kom smá núningur milli þátttakenda á Hátíð vonar og mannréttindahátíðarinnar Glæstar vonir þegar hátíðarnar hófust í Laugardalnum síðdegis. Félagar í samtökum sem kalla sig Bleiki hnefinn dreifðu miðum til þeirra sem sóttu Hátíð vonar, en reynt var að fjarlægja miðana.

Mjög góð þátttaka er á Hátíð vonar sem hófst í Laugardalshöll, en setið var í hverju sæti. Margir komu líka saman á mannréttindahátíðinni Glæstar vonir í Þróttaraheimilinu sem Samtökin '78 stóðu fyrir.

Kirkjur sameinist í að miðla boðskap um kærleika Guðs, von og frið

Fjöldi sjálfboðaliða, kirkjur, erlendir tónlistarmenn og fólk í kristilegu starfi standa að Hátíð vonar sem fram fer í dag og á morgun. Markmið hátíðarinnar er að ýmsir söfnuðir, samtök og kirkjur sameinist í að miðla boðskap um kærleika Guðs, von og frið til Íslendinga. Hátíðin er öllum opin og aðgangur ókeypis.

Rúmlega 400 sjálfboðaliðar og 40 kirkjur, söfnuðir og samtök standa að hátíðinni. Franklin Graham, sem er forseti og framkvæmdastjóri Kristniboðssamtaka Billy Grahams, var boðið af forystufólki hér á landi að koma og flytja boðskapinn bæði kvöldin.

Á samkomum hátíðarinnar koma fram ýmsir söngvarar og tónlistarfólk, bæði innlendir og erlendir, sem flytja kristilega tónlist fyrir samkomugesti. Þeirra á meðal eru: Gréta Salóme Stefánsdóttir, Hrönn Svansdóttir, Íris Guðmundsdóttir, Íris Lind Verudóttir, Maríanna Másdóttir, Páll Rósinkranz, Pétur Hrafnsson, Þóra Gísladóttir og Þorvaldur Halldórsson, auk þriggja manna tríós sem kallar sig Gospeltóna. Það eru þau Óskar Einarsson, Hrönn Svansdóttir og Fanny K. Tryggvadóttir. Einnig tekur rúmlega 100 manna kór þátt í samkomunum.

Af erlendu tónlistarfólki má nefna Michael W. Smith sem er meðal þekktustu söngvara kristilegrar tónlistar vestan hafs og austan á liðnum áratugum, Tommy Coomes Band og gítaristann Dennis Agajanian en þau hafa oft tekið þátt í hátíðum sem þessum.

Samtökin '78 minna á manngæsku og mannréttindi

Samtökin ´78 efndu til hátíðar í dag um svipað leyti og Hátíð vonar var að hefjast. Hátíðin var kölluð Glæstar vonir. Tilgangur hennar var að „minna alla á mikilvægi sannrar mannvirðingar, manngæsku og mannréttinda.“ Hátíðin stóð í um klukkustund, en meðal ræðumanna voru Sigurður Hólm Gunnarsson frá Siðmennt og sr. Sigríður Guðmarsdóttir sóknarprestur í Guðríðarkirkju.

Dreifðu miðum til gesta á Hátíð vonar

Að hátíðinni lokinni fór hópur manna að Laugardalshöll og spjallaði við fólk sem var að koma á Hátíð vonar. Hópur sem hvatt hafði til mótmæla á facebook og nefna sig Bleiki hnefinn dreifði miðum til gesta og setti miða með boðskap sínum undir rúðuþurrkur á bílum sem lagt var við Laugardalshöll. Á miðunum var Franklin Graham sakaður um hatursáróður.

Aðstendur hátíðarinnar gengu um og fjarlægðu miðana sem settir voru á bílana. Félagar í Bleika hnefanum lýstu óánægju með það.

Þess má að lokum geta að þriðja hátíðin er einnig í gangi í Laugardal í kvöld. Það er bjórhátíð Októberfest. Á henni er rakin saga bjórsins, Skinnsemi Sirkuss Íslands kemur fram, efnt er til pub-quiz og enski boltinn verður í beinni útsendingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert