Hjördís heimsmeistari í brids

Bandaríski heimsmeistararnir. Frá vinstri eru Jenny Wolpert, Jill Levin, Hjördís …
Bandaríski heimsmeistararnir. Frá vinstri eru Jenny Wolpert, Jill Levin, Hjördís Eyþórsdóttir, Janice Seamon-Molson, Jill Meyers, Migry Zur-Campanile og Sue Picus, fyrirliði. mynd/WBF.org

Hjördís Eyþórsdóttir varð í dag heimsmeistari kvenna í brids ásamt félögum sínum í bandaríska kvennalandsliðinu. Í opnum flokki urðu Ítalir heimsmeistarar þegar þeir unnu lið Mónakó í úrslitaleik um Bermúdaskálina. Heimsmeistaramótið fór fram á Bali í Indónesíu.

Bandaríska kvennaliðið vann það enska í jöfnum og afar spennandi úrslitaleik um Feneyjabikarinn. Staðan var jöfn þegar fjórum spilum var ólokið en þá fengu bandarísku konurnar bútasveiflu og það réð úrslitum. Lokastaðan var 229-220 fyrir Bandaríkin.

Í bandaríska liðinu spiluðu, auk Hjördísar, Jenny Wolpert, Jill Levin, Janice Seamon-Molson, Jill Meyers, Migry Zur-Campanile og Sue Picus var fyrirliði. Það vekur athygli að þrír af spilurunum eru frá Evrópu. Hjördís er íslensk, Wolpert sænsk og Zur-Campanile fæddist í Rúmeníu en er ísraelskur ríkisborgari.

Í opnum flokki unnu Ítalir öruggan sigur á Mónakó. Í ítalska liðinu spiluðu Augustin Madala, Antonio Sementa, Lorenzo Lauria, Norberto Bocchi, Alfredo Versace og Giorgio Duboin.

Myndskeið frá heimsmeistaramótinu á Bali

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert