„Hver einstaklingur er dýrmætur í augum Guðs“

„Hver einstaklingur er dýrmætur í augum Guðs og er elskað barn Guðs.“ Þetta sagði Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands á Hátíð vonar í gærkvöldi. Fullt var út úr dyrum á hátíðinni.

„Heimurinn þarfnast kærleika Guðs. Við höfum verið send með þann boðskap út í heiminn. Boðskap sem ætlaður er öllum manneskjum.

Sem betur fer búum við í landi þar sem er frelsi til trúariðkunar í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Í landi þar sem við höfum leyfi til að tjá skoðanir okkar. Það er stjórnarskrárvarinn réttur okkar. Í stjórnarskránni segir: „Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar.“ Réttindum fylgja skyldur. Réttindi mín eru líka réttindi þín. Við höfum skyldur við hvert annað,“ sagði Agnes í ræðu sinni.

„Við erum eitt í Kristi, en við erum ekki öll eins. Kristur mætir okkur þar sem við erum stödd á lífsins leið og kallar okkur til fylgdar við sig. Að fylgja Jesú er að feta í sporin hans. Elska Guð og mæta náunganum með kærleika Guðs. Bera virðingu fyrir okkur sjálfum, náunganum og Guði. Treysta Drottni fyrir öllu okkar. Treysta því að andi hans leiði okkur og blessi og láti okkur finna leiðir til lausnar þegar við stöndum frammi fyrir vanda,“ sagði Agnes.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert