Félagsmenn í BSRB leggja mesta áherslu á hækkun launa. Þetta er niðurstaða kjarakönnunar BSRB sem gerð var meðal félagsmanna bandalagsins.
Félagsmenn voru spurðir hvað þeim þætti að sitt stéttarfélag ætti að leggja mesta áherslu á í starfsemi sinni á næstu mánuðum og í komandi kjarasamningsviðræðum.
Flestir nefndu hækkun launa sem mikilvægasta atriðið en þar á eftir töldu flestir að mikilvægast væri að hækka lægstu laun umfram önnur laun. Konur og þeir sem yngri eru vilja frekar leggja áherslu á hækkun lægstu launa umfram önnur laun og þá leggur yngra fólk leggur einnig meiri áherslu en aðrir á aukið starfsöryggi. Raunar sést af niðurstöðum könnunarinnar að ef launaliðirnir eru teknir frá og önnur atriði sem nefnd voru eru skoðuð sérstaklega nefndu flestir að mikilvægast væri að auka starfsöryggi og réttindi launafólks.
Litlu færri nefndu mikilvægi þess að stytta vinnuvikuna og varð talsverð aukning á því hversu margir lögðu áherslu á það mál á milli ára. BSRB hefur undanfarin ár barist fyrir því að fram fari athugun á mögulegri hagkvæmni þess að stytta vinnutíma og samkvæmt könnuninni er mikill vilji fyrir því að slíkt nái fram að ganga.
„Það er líklegt að þetta endurspegli aukið álag sem fólk hefur verið að upplifa í störfum sínum á allra síðustu árum. Við höfum í samtölum okkar við félagsmenn fundið fyrir miklum vilja til þess að endurskoða vinnutíma fólks og þá sérstaklega hjá þeim sem vinna vaktavinnu. Þessar niðurstöður styðja við það sem við höfum fundið og sýna okkur að álag í starfi hefur farið mjög vaxandi á allra síðustu árum,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í fréttatilkynningu.