Svikarar sjá sér leik á borði á leigumarkaði

mbl.is/Sigurður Bogi

Frumskógarlögmál ríkir á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu. Þess eru dæmi að fólk reiði af hendi greiðslu til að festa sér íbúð, án þess að hafa séð annað en myndir af henni. Í þessu umhverfi sjá svikahrappar sér leik á borði að hafa fé af fólki.

Borið hefur á einkennilegri framsetningu á sumum auglýsingavefjum, þar á meðal bland.is og á leiguvef mbl.is. Algengt munstur er að húseigandinn segist vera staddur erlendis og geti því ekki sýnt íbúðina en lykillinn verði afhentur eftir greiðslu tryggingar.

Oftar en ekki fylgir sögunni, þegar líður á samskiptin, að margir fleiri hafi áhuga á húsnæðinu og því ríði á að ganga frá samningum sem fyrst. Þegar á reynir er svo íbúðin alls ekki til útleigu eða jafnvel ekki til.

Margir höfðu samband við svikahrapp

Raunin virðist vera sú að jafnvel þótt viðvörunarbjöllur klingi um að ekki sé allt með felldu séu sumt fólk komið í svo þrönga stöðu í húsnæðisleit að örvæntingin verði skynseminni yfirsterkari og það láta tilleiðast. 

Nokkrar auglýsingar hafa á síðustu vikum verið teknar út af leiguvef mbl.is eftir að grunur vaknaði um svik. Hinsvegar sést að áður en þær voru fjarlægðar höfðu tugir notenda, jafnvel hátt í 100 manns á einum degi, sent fyrirspurnir til þess sem auglýsti. 

mbl.is ræddi í vikunni við ungan mann í húsnæðisleit sem sagði fólk taka mikla sénsa á leigumarkaðnum. „Auðvitað vill maður helst fá að skoða íbúðina áður en maður segir já eða nei, en það er varla hægt því andrúmsloftið er þannig að fyrstur kemur, fyrstur fær. Fólk er jafnvel að taka íbúðir sem það hefur bara séð myndir af.“

Rétt er að taka fram að mbl.is hefur sent lögreglu allar haldbærar upplýsingar um grunaða svikahrappa. Þá má benda á að ef grunsemdir vakna hjá fólki um að eitthvað sé bogið við auglýsingu á mbl.is er hægt að senda ábendingu á netdeild@mbl.is.

Ættu að hringja viðvörunarbjöllum

Hafliði Þórðarson, lögreglufulltrúi hjá fjármunabrotadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að sem betur fer hafi ekki mörg mál ratað inn til þeirra þar sem fólk hafi tapað fé vegna leiguíbúðasvindls. „Það er engin holskefla í þessu, en það eru dæmi um það og auðvitað sárt fyrir þá sem lenda í því.“

Svikaauglýsingar má yfirleitt þekkja af ákveðnum atriðum. Á leiguvef mbl.is hafa slíkar auglýsingar t.d. átt það sameiginlegt að þar virðist vera notast við þýðingarvél Google til að setja textann saman. Stundum hefur lýsingunni á íbúðinni verið raðað saman úr öðrum auglýsingum og stemmir textinn þá illa við myndirnar við nánari athugun.

Hafliði segir að ákveðin atriði ættu að hringja viðvörunarbjöllum. Fyrir það fyrsta eigi alltaf að forðast að leggja fram greiðslu án þess að hafa fengið neitt í hendurnar. Þegar seljandinn færist stöðugt undan því að hitta kaupandann, eða sýna íbúðina, með einhverjum afsökunum þá sé það sterk vísbending um að brögð séu í tafli.

„Menn spila líka þann leik að þykjast vera svolítið fákunnandi, þannig að þér finnist þú hafa yfirhöndina í viðskiptunum. Svo á endanum hugsar fólk kannski að það megi bara ekki missa af þessu tækifæri og drífir sig í að borga til að festa sér íbúðina,“ segir Hafliði. 

Þess eru dæmi að fólk tapi peningum sem það greiðir …
Þess eru dæmi að fólk tapi peningum sem það greiðir fyrirfram til að festa sér leiguíbúð sem síðan reynist ekki vera til. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert