Ferðamaðurinn talinn af

Nathan Foley-Mendelssohn.
Nathan Foley-Mendelssohn.

Banda­ríski ferðamaður­inn Nath­an Foley-Mendels­sohn, sem ætlaði að ganga Lauga­veg­inn úr Land­manna­laug­um að Skóg­um und­ir Eyja­fjöll­um, er tal­inn af, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá lög­regl­unni á Hvols­velli.

Sveinn Kr. Rún­ars­son, yf­ir­lög­regluþjónn á Hvols­velli, seg­ir að ekk­ert hafi spurst til hans síðan 10. sept­em­ber sl., en þá lagði hann einn upp í Lauga­veg­ar­göng­una frá Land­manna­laug­um.

Frá Íslandi ætlaði Foley-Mendels­sohn til Barcelona. Þegar hann skilaði sér ekki þangað höfðu aðstand­end­ur sam­band við lög­reglu hér á landi. Það var á föstu­dag og þá strax hófst und­ir­bún­ing­ur leit­ar sem stóð alla helg­ina.

Um 180 sjálf­boðaliðar björg­un­ar­sveita tóku þátt í leit­inni um helg­ina. Þyrla Land­helg­is­gæsl­unn­ar flaug yfir leit­ar­svæðið í gær og á laug­ar­dag þyrla sem ætt­ingj­ar manns­ins leigðu. Korta- og síma­notk­un hef­ur verið at­huguð sem og gögn í far­tölvu sem var í bíl sem hann leigði og skildi eft­ir á Hellu, en þaðan tók hann rút­una í Land­manna­laug­ar. Sú at­hug­un skilaði hins veg­ar engu.

Sveinn seg­ir að þrátt fyr­ir að maður­inn sé tal­inn af verði áfram leitað eft­ir hon­um. Heil­brigð skyn­semi segi hins veg­ar að nán­ast eng­ar lík­ur eru á því að hann sé enn á lífi. Foley-Mendels­sohn hafi verið saknað í 20 daga og hann hafi verið með vist­ir til þriggja daga auk þess sem slæmt veður hafi verið á þess­um slóðum, rign­ing og kuldi. Þrátt fyr­ir að form­leg leit hafi ekki haf­ist fyrr en um helg­ina hafa gangna­menn verið þarna á ferðinni und­an­farið og eng­inn orðið manns­ins var frá því hann fór frá skál­an­um í Land­manna­laug­um þann 10. sept­em­ber.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert