Orðlaus yfir Íslandi

Eyjafjallajökull.
Eyjafjallajökull. mbl.is/Rax

„Hvern einasta dag á eyjunni, sem mynduð er af eldgosum og jarðhræringum, sáum við eitthvað sem við höfðum aldrei ímyndað okkur, aldrei barið augum eða átt von á að sjá aftur nokkurs staðar á plánetunni okkar.“

Með þessum orðum hefst frásögn Marcy Meffert, dálkahöfundar hjá bandaríska dagblaðinu San Antonio Express-News, af heimsókn hennar til Íslands nýverið. Hún segir að þrátt fyrir að hafa aflað sér upplýsinga um íslensku fossana, hraunin, eldfjöllin, klettadrangana og önnur náttúrufyrirbæri fyrirfram hafi upplifunin af að sjá þau með eigin augum verið yfirþyrmandi. „Ég hætti að skrifa niður glósur á öðrum degi til þess að geta notið til fulls hvers augnabliks þar sem við horfðum með andakt á það sem fyrir augu bar og hlustuðum á leiðsögumennina okkar lýsa einstöku landslagi Íslands, sögu, menningu og íbúum.“

Hún segir að Íslendingar sigri í keppni við Texasbúa þegar kemur að skyndilegum breytingum í veðri. „Við upplifðum kafaldsbyl öðru megin við fjallgarð og sólskin um leið og við komum hinu megin við hann. Vindurinn var slíkur að hann blés jakkanum af manni ef hann var ekki renndur upp. Hann var svo sterkur að hann feykti litlum dreng um koll við foss þar sem vatnið frussaðist til hliðar meðfram jörðinni vegna vindaflsins.“

Nágrannar eldfjalla sérlega harðgerir

Meffert segir þá Íslendinga sem búa í nágrenni eldfjalla sérstaklega harðgert fólk. Þannig hafi fjölskylda sem byggi í nágrenni Kötlu einungis beðið í nokkra daga eftir að fjallið hafi gosið árið 2010 (þar á hún þó væntanlega við Eyjafjallajökul), og í kjölfarið stöðvað flugumferð í Evrópu, þar til fólkið hafi farið að moka burt öskunni. Fjölskyldan hafi í kjölfarið nýtt sér aðstæður og byggt upp ferðamannaiðnað í kringum eldgosið. Er þar væntanlega vísað til bæjarins Þorvaldseyrar. „Eiginkona bóndans, sem er á fimmtugsaldri, sagði af yfirvegun að hún minntist þess að hafa upplifað 25 eldgos á ævi sinni.“

Ennfremur gerir hún að umfjöllunarefni sínu að íslenskt búfé sé að mestu upprunnið frá landnámi Íslands og að kindur, hestar og kýr gangi frjáls um hvar sem gras grói. Eina ógnin við lítil lömb séu refir. „Íslenskir hestar reika um og ærslast eins og hvolpar. Leggjast síðan niður og hvíla sig þegar þeir verða þreyttir. Nokkuð sem kemur ferðamönnum á óvart sem hafa aldrei séð hesta öðruvísi en standandi uppréttir.“

Þekkja söguna sína og elska álfana

Meffert er einnig ofarlega í huga menntunarstig þjóðarinnar og menningarlíf. Þar á meðal fjöldi safna. „Höggmynd er nánast á hverjum einasta grasbletti hvort sem landið er í einkaeigu eða almenningseigu og það virðist vera bókabúð eða kaffihús í annarri hverri húsaröð.“ Þá hafi bækur um Íslendingasögurnar og landnám norrænna manna verið um allt. „Íslendingar þekkja sögu sína og elska álfana sína.“ Vinsælastir séu jólasveinarnir 13 og nefnir hún nokkra þeirra til sögunnar eins og Hurðaskelli, Pottaskefil, Bjúgnakræki og Gluggagæi.

„Ég verð sjaldan orðlaus. Það eina sem ég get sagt um hið stórkostlega Ísland er að fólk verður að sjá það til þess að trúa þessu.“

Marcy Meffert, dálkahöfundur hjá bandaríska dagblaðinu San Antonio Express-News.
Marcy Meffert, dálkahöfundur hjá bandaríska dagblaðinu San Antonio Express-News. Skjáskot af Expressnews.com
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert